Fólksflótti frá Búrma er hafinn af miklum þunga á ný að loknu regntímabilinu. Að minnsta kosti sex bátar með hundruð flóttamanna úr hópi rohingja innanborðs hafa siglt frá Búrma síðustu vikurnar. Bátarnir sigla yfir Andaman-haf í átt að Taílandi og Malasíu og er umfang fólksflóttans nú að nálgast það sem var er verst lét árið 2015. Taílensk yfirvöld reyna að uppræta smyglhringi sem reyna að græða peninga á flóttafólkinu.
Flótti yfir Andaman-haf er hættulegur. Á regntímanum, sem nú er nýafstaðinn, er hann ávallt lífshættulegur og því leggja fáir á hafið á því tímabili sem stendur venjulega frá júní og fram í október. Og í ár var því þannig farið að um leið og stytti upp og vind lægði hófst mikill fólksflótti yfir hafið.
Í gærmorgun komu m.a. 20 manns úr hópi rohingja að ströndum indónesísku eyjunnar Aceh. Fólkið hafði siglt yfir hafið á litlum báti. Í síðustu viku náði búrmíski sjóherinn í 38 rohingja, karlmenn, konur og börn, sem voru á siglingu um Andaman-haf og stefndu í átt að Malasíu. Fólkið var handtekið og sent aftur til Rahkine-héraðs í Búrma þar sem tugþúsundir rohingja neyðast til að búa í einangruðum búðum.
Hópurinn sem kom að indónesísku eyjunni í þessari viku er talinn hafa komið annaðhvort frá Rahkine-héraði í Búrma eða Cox'sBazar í Bangladess. Þar heldur til um milljón rohingja sem flúið hafa frá Búrma. Fólkið hefur flúið undan grimmilegu ofbeldi af hálfu yfirvalda í Búrma en rohingjar eru minnihlutahópur múslima í landinu og hafa sætt ofsóknum lengi. Sameinuðu þjóðirnar segja aðgerðir búrmíska hersins vera þjóðernishreinsanir.
Aukinn straumur flóttafólks frá Rahkine-héraði nú er talinn til marks um það að ástandið þar hafi ekki batnað, líkt og yfirvöld í Búrma hafa haldið fram, heldur þvert á móti versnað. Sameinuðu þjóðirnar sem rannsakað hafa aðbúnað rohingja í Búrma segja fólkið fórnarlömb aðskilnaðarstefnu í heimalandi sínu. Þar býr það við oft og tíðum skelfilegar aðstæður og hefur lítinn aðgang að mat og takmarkað ferðafrelsi.
Um miðjan nóvember yfirgaf hópur 93 rohingja þorp sitt í Rahkine-héraði og hélt í átt að Malasíu á litlum báti. Sjóherinn þar í landi fann hópinn þó áður en hann kom að landi. Nokkrum dögum fyrr hafði sjóherinn í Malasíu fundið tvo aðra báta með flóttafólki.