Þyrftir að vera bæði heyrnarlaus og blindur

00:00
00:00

„Þú þarft að vera bæði heyrn­ar­laus og blind­ur til þess að heyra hvorki né sjá þessa miklu reiði,“ sagði for­sæt­is­ráðherra Frakk­lands, Édour­ard  Phil­ippe, eft­ir að hafa kynnt ákvörðun rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að fresta skatta­hækk­un­um og auka fjár­fram­lög til fá­tækra.

Rík­is­stjórn Frakk­lands hef­ur samþykkt að setja hálf­an millj­arð evra, sem svar­ar til 70 millj­arða króna, í neyðaraðstoð til fá­tækra heim­ila. Eins að fresta hækk­un skatta á bens­ín og dísi­lol­íu um hálft ár til að reyna að binda enda á götu­mót­mæli og óeirðir í Par­ís og fleiri borg­um lands­ins síðustu vik­ur.

Þetta er í fyrsta skipti sem for­seti Frakk­lands, Emm­anu­el Macron, læt­ur und­an þrýst­ingi en vin­sæld­ir hans hafa dalað mjög að und­an­förnu. Í Morg­un­blaðinu í dag kem­ur fram að stjórn­mála­skýrend­ur segja að stjórn Macrons hafi verið í kreppu vegna mót­mæl­anna. Þetta er í fyrsta skipti sem hún neyðist til að gefa eft­ir vegna mót­mæla og er það álitið mikið áfall fyr­ir Macron því að hann hef­ur sagt að hann sé staðráðinn í að láta ekki götu­mót­mæli og verk­föll hindra um­bæt­ur sem hann tel­ur nauðsyn­leg­ar, ólíkt mörg­um for­vera hans. Macron hafði þver­tekið fyr­ir að breyta stefn­unni, sagt að nauðsyn­legt væri að hækka skatt­ana á bens­ín og dísi­lol­íu til að flýta fyr­ir skipt­um yfir í um­hverf­i­s­vænni orku í sam­göng­um. Með því að hætta við skatta­hækk­un­ina myndi hann grafa und­an um­hverf­is­stefnu stjórn­ar sinn­ar.

Skatt­ar verða ekki látn­ir stefna ein­ingu þjóðar­inn­ar í hættu, sagði Phil­ippe eft­ir að hafa greint frá ákvörðun stjórn­valda. Auk þess að fresta hækk­un á eldsneyt­is­skött­um um hálft ár verður ekki heim­ilt að hækka verð á raf­magni og gasi út vet­ur­inn. 

Ekki var ljóst í gær hvort til­slök­un stjórn­ar­inn­ar nægði til að lægja öld­urn­ar. Skipu­leggj­end­ur mót­mæl­anna og leiðtog­ar stjórn­ar­and­stöðunn­ar á þing­inu sögðu að ákvörðun stjórn­ar­inn­ar dygði ekki. Hún von­ar þó að til­slök­un­in verði til þess að stuðning­ur­inn meðal al­menn­ings við mót­mæl­in minnki og þau hjaðni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka