Bandarísk stjórnvöld þrýsta mjög á Kínverja að herða eftirlit með útflutningi á fentanýl, ópíóíðalyfi sem er fimmtíu sinnum sterkara en heróín. Gríðarlegu magni af lyfinu er smyglað frá Kína og er talið að stærsti hluti fentanýls sem framleitt er með ólöglegum hætti komi þaðan.
Þetta er eitt af því sem rætt er um í samningaviðræðum ríkjanna tveggja varðandi tollastríð þeirra.
Á G20-ráðstefnunni í Argentínu um liðna helgi samþykktu kínversk yfirvöld að breyta reglum þannig að allar gerðir fentanýl verði skráðar sem eiturlyf og það þýðir þeir sem verða staðnir að smygli eigi yfir höfði sér dauðarefsingu verði þeir fundnir sekir. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að þetta geti gjörbylt stöðunni í stríðinu við ópíóíðafaraldurinn þar í landi.
Trump fagnar þessu á Twitter og segir að ef Kína grípi til þessara aðgerða og beiti dauðarefsingum á þá sem gerist sekir um dreifingu og sölu þá muni áhrifin verða stórkostleg. En sérfræðingar efast um að áhrifin verði svo mikil.
Framleiðsla á fentanýl er orðin mjög ábatasöm atvinnugrein hjá kínverskum smyglurum, segir Mike Vigil, sem áður stýrði aðgerðum bandarískra yfirvalda erlendis á sviði eiturlyfjaviðskipta.
Hann segir að það muni reynast erfitt fyrir kínversk yfirvöld að sinna eftirliti með þessum viðskiptum. Ekki síst vegna mikillar eftirspurnar í ríkjum eins og Bandaríkjunum.
Talið er að Kína sé einn helsti framleiðandi lyfsins sem er talið bera ábyrgð á gríðarlegri fjölgun dauðsfalla af völdum lyfjamisnotkunar í ríkjum eins og Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu.
Fremur auðvelt er að verða sér úti um lyfið; kaupendur finna lyfið á netinu, greiða fyrir það með rafmynt, kreditkortum eða millifærslu og fá pöntun sína senda með alþjóðlegri póstþjónustu, samkvæmt skýrslu sem lögð var fyrir Bandaríkjaþing um málið.
Efnaverksmiðjur spretta upp eins og gorkúlur í Kína enda getur framleiðsla á 1 kg af fentanýl skilað álíka miklu og 50 kg af „hreinu“ heróíni. Fjárfesting upp á 10 þúsund Bandaríkjadali skilar hagnaði upp á hálfa milljón dala.
Á síðasta ári létust fleiri úr ofskömmtun lyfja í Bandaríkjunum en í umferðarslysum, sjálfsvígum og dauðföll af völdum skotvopna.
Mjög harðar refsingar eru fyrir eiturlyfjaframleiðslu í Kína ekki síst vegna ópíumfaraldurs sem þar geisaði á nítjándu öldinni.
En með framleiðslu á fentanýl, sem er löglegt lyf við verkjum og er notað meðal annars af krabbameinssjúklingum, hefur verið hægt að fara dult með ólögleg viðskipti með lyfið.