Dóttir stofnanda kínverska símafyrirtækisins Huawei var handtekin í Kanada 1. desember og verður væntanlega framseld til Bandaríkjanna.
Meng Wanzhou, sem er fjármálastjóri Huawei og varaformaður stjórnar fyrirtækisins, var handtekin í Vancouver en ekki hefur verið gefið upp hvers vegna. Bandarísk yfirvöld hafa rannsakað Huawei undanfarið vegna mögulegra brota á viðskiptabanni gegn Íran.
Samkvæmt BBC hefur sendiráð Kína í Kanada mótmælt handtökunni og krafist þess að hún verði látin laus. Stjórnendur Huawei segjast hafa litlar upplýsingar um handtökuna og hvað Meng á að hafa gert af sér.
Dómsmálaráðuneyti Kanada hefur staðfest handtöku Meng og hvar hún fór fram. Óskað hafi verið eftir framsali hennar til Bandaríkjanna og á föstudag verði hún leidd fyrir dómara. Ekki sé hægt að upplýsa frekar um málið að beiðni Meng.