Kosti ekkert í lestir og strætó

Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar.
Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar. AFP

Til stendur að gera almenningssamgöngur í Lúxemborg gjaldfrjálsar frá árinu 2020. Tilgangurinn er að draga úr umferðarþunga og loftmengun.

Fram kemur í frétt AFP að þetta sé stefna ríkisstjórnar landsins undir forystu Xavier Bettel forsætisráðherra og muni hún ná til lestarsamgangna, sporvagna og strætisvagna.

Enn fremur segir að á árinu 2016 hafi 100 milljónir farþega ferðast með almenningssamgöngum í Lúxemburg. Vaxandi umferðarþungi hafi verið mikið kosningamál fyrir síðustu þingkosningar.

Samgönguráðuneyti Lúxemburg segir rekstur almenningssamgangna í landinu kosta 491 milljón evra á ári og á móti komi 40 milljónir evra af sölu miða og áskrifta.

Verkalýðsfélög hafa lýst áhyggjum af því að ákvörðunin leiði til atvinnuleysis á meðal þeirra sem starfa í dag við miðasölu í almenningssamgöngur. Finna yrði lausn á þeim hluta málsins. Fyrr gætu verkalýðsfélög ekki stutt áformin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert