Upplýsi um ástæður handtökunnar

Kona notar síma sinn við merki Huawei í Peking. Meng …
Kona notar síma sinn við merki Huawei í Peking. Meng Wanzhou, fjár­mála­stjóri raftækjaframleiðandans, var hand­tek­in í Kanada í byrjun desember. AFP

Kínversk stjórnvöld hvöttu í dag yfirvöld í Bandaríkjunum og Kanada til að upplýsa um ástæður þess að Meng Wanzhou, fjár­mála­stjóri raftækjaframleiðandans Huawei og vara­formaður stjórn­ar fyr­ir­tæk­is­ins, var hand­tek­in í Kanada í byrjun desember.

„Við höfum sett fram alvarlega kröfu á hendur Kanada og Bandaríkjunum um að bæði ríki upplýsi samstundis ástæður varðhaldsins og láti fangann lausan strax til að verja lagaleg réttindi hans,“ sagði Gao Feng talsmaður kínverska viðskiptaráðuneytisins á fundi með fréttamönnum.

Meng er dótt­ir stofn­anda Huawei. Hún var handtekin í Vancouver 1. september og segjast stjórn­end­ur Huawei  hafa litl­ar upp­lýs­ing­ar um hand­tök­una og hvað Meng á að hafa gert af sér.

Að sögn BBC hefur verið óskað eftir framsali hennar til Bandaríkjanna, en þar í landi hafa yfirvöld rann­sakað Huawei und­an­farið vegna mögu­legra brota á viðskipta­banni gegn Íran.

Þá hafa kínversk yfirvöld einnig tilkynnt að þau muni nú samstundis grípa til aðgerða í samræmi við samkomulag sem náðst hafi í viðskiptastríðinu við Bandaríkin.

„Kína mun strax innleiða samkomulagið sem báðar hliðar komust að varðandi landbúnaðarvörur, orku-, bíla og aðra tilgreinda hluti,“ hefur AFP eftir Feng.

Ekki er nema sólarhringur liðinn frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því að þeir Xi Jinping, forseti Kína, hefðu fallist á að veita samninganefndum 90 daga frest til að  leysa úr viðskiptadeilunni.

Hlutabréfamarkaðir í Hong Kong og Sjanghæ lækkuðu í kjölfar fréttanna af handtöku Meng. Hang Seng-vísitalan féll um 2,47%, eða um 663,30 stig. Eins féll Shanghai Composite-vísitalan um 1,68%, eða um 44,63 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert