Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, flutti tilfinningaríka kveðjuræðu á flokksþingi Kristilegra demókrata sem fram fer þessa dagana. Merkel greindi frá því í október að hún muni ekki gefa aftur kost á sér sem leiðtogi flokksins.
„Við verðum að halda uppi vörnum fyrir frjálslynd gildi okkar, innan frá jafnt sem utan frá,“ sagði Merkel meðal annars í ræðu sinni.
Merkel hefur verið leiðtogi Kristilegra demókrata undanfarin 18 ár og gegnt embætti kanslara Þýskalands frá 2005. Margt hefur þótt benda til þess að pólitísk sól hennar væri smám saman að setjast. Nú síðast ítrekaðir ósigrar í héraðskosningum í landinu. Hún hefur einnig staðfest að hún muni ekki sækjast eftir endurkjöri í embætti kanslara þegar kjörtímabilinu lýkur 2021.
Í ræðu sinni gaf Merkel í skyn að hún hyggst styðja Annegret Kramp-Karrenbauer sem eftirmann sinn en hún lofsamaði hana fyrir vel unnin störf sem forsætisráðherra Saarlands, minnsta sambandsríki Þýskalands.
Kosið verður um næsta leiðtoga flokksins seinna í dag og er hennar helsti keppinautur Friedrich Merz, lögfræðingur og auðkýfingur. Þriðji frambjóðandinn, Jens Spahn heilbrigðisráðherra, virðist eiga minni möguleika á að ná kjöri.
Merkel hlaut dynjandi lófatak þegar ræðunni lauk og stóðu flokksmenn og fögnuðu henni í um sex mínútur. Þá mátti sjá skilti á lofti með áletruninni: Takk stjóri.
Merkel segir þýsk stjórnmál standa frammi fyrir miklum áskorunum, svo sem loftslagsbreytingum, Brexit og að halda uppi samstöðu í Evrópu.
Þá sagðist hún vera óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að leiða flokkinn í öll þessi ár. „Framtíðin mun reynast prófsteinn á gildi okkar. Við verðum alltaf að nálgast vinnu okkar með gleði,“ sagði Merkel.