Þegar kviðdómur kvað upp þá niðurstöðu sína í gær að nýnasistinn sem ók á mannfjöldann í Charlottesville í fyrra væri sekur um morð grét Al Bowie af gleði. „Mér hefur ekki liðið betur í eitt og hálft ár,“ sagði Bowie, 28 ára, sem mjaðmagrindarbrotnaði á sex stöðum er James Alex Fields ók bíl sínum inn í hóp mótmælenda í ágúst í fyrra. Mótmælendur voru saman komnir í borginni til að andmæla kröfugöngu nýnasískra hreyfinga.
Þó að Bowie sé létt þá finnst henni sektardómur yfir hinum 21 árs gamla Fields aðeins vera lítið skref á þeirri löngu vegferð sem er fyrir höndum í því að berjast gegn fordómum sem hafa vaxið undir stjórn Donalds Trump forseta.
Fields var í gær, föstudag, dæmdur sekur fyrir að myrða Heather Heyer, 32 ára gamlan lögfræðinema. Fields ók á hana á bíl sínum með þeim afleiðingum að hún lést. Hann var einnig sakfelldur fyrir fimm líkamsárásir og fyrir að stinga af frá vettvangi glæps.
Bowie var meðal þeirra sem þustu á vettvang til að hjálpa þeim sem Fields ók á. Sú ákvörðun átti eftir að reynast henni dýrkeypt því Fields setti í bakkgír og ók þá á Bowie.
Bowie tekur undir með mörgum aðgerðasinnum í Charlottesville sem segja aðFields sé aðeins einkenni af kerfisbundnum rasisma sem eigi sér rætur í sögu borgarinnar.
Það var Richard Spencer, þekktur hvítur öfgamaður, sem boðaði til kröfugöngu rasista í Charlottesville í fyrra. Tilgangurinn var að mótmæla því að stytta af suðurríkja hershöfðingjanum Robert E. Lee yrði tekin niður. Lee var einn helsti baráttumaður fyrir áframhaldandi þrælahaldi í suðurríkjunum.
Fjöldi fólks ákvað hins vegar að mæta einnig á vettvang og mótmæla mótmælunum, ef svo má að orði komast. Til átaka kom svo milli fólks úr þessum tveimur hópum.
Borgarráð Charlottesville hafði samþykkt að fjarlægja styttuna sem sett var upp fyrir 94 árum. Hins vegar eru örlög styttunnar nú í höndum dómstóla því ákvörðun borgarráðsins var kærð.
Charlottesville er í um 160 kílómetra fjarlægð frá höfuðborg Bandaríkjanna, Washington. Borgin var heimaborg tveggja fyrrverandi forseta. Annar þeirra var Thomas Jefferson, aðalhöfundur sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna.
Íbúar borgarinnar eru flestir vel stæðir og þar er að finna hinn virta Virginíuháskóla og aðrar sögufrægar byggingar.
En undir þessu yfirborði telja sumir að enn blundi óuppgerð mál, 150 árum eftir að borgarastyrjöldinni lauk. „Charlottesville varð upprunalega til við sameiningu nokkurra stórra plantekra,“ segir Andrea Douglas, forstjóri menningarmiðstöðvar svartra, Jefferson School African American Heritage Center. Ein þessara plantekra var í eigu Jeffersons sjálfs.
Svartir íbúar Charlottesville hafa ekki notið sömu forréttinda og efnahagslegu gæða og aðrir borgarbúar að sögn Douglas. Þeir eru nú um 19% af 46 þúsund íbúum borgarinnar. Douglas segir þá ekki hafa notið sömu tækifæra til menntunar og starfa í gegnum áratugina. Þá bendir hann á að íbúahverfi svartra, Vinegar Hill, hafi verið jafnað við jörðu á sjöunda áratugnum og með því hafi horfið arfleifð svartra í borginni. Í stað byggðarinnar hafi verið reistir skýjakljúfar.
Tanesha Hudson er meðal þeirra sem finnst stytturnar af suðurríkjahershöfðingjunum óþægilegar. Þær séu stöðug áminning um rasíska fortíð Charlottesville. „Þetta er vanvirðing við alla svarta sem eiga ættingja sem voru látnir tína bómull eða voru þrælar. Eða voru hengdir, drepnir, nauðgað.“
Í hugum margra íbúa Charlottesville voru mótmælin í fyrra góð áminning um að gera sitt í því að berjast gegn kynþáttahatri. Í þeim hópi er Matthew Christensen. Hann hefur nú útbúið skjal á netinu þar sem skorað er á borgaryfirvöld að taka niður aðra styttu, þá sem er fyrir framan dómshús í Albemarle-sýslu.
Jeanne Peterson var í hópi þeirra sem Fields ók á og hlaut alvarlega áverka. „James Fields er aðeins toppurinn á ísjakanum,“ segir hún og vill að það verði gert að forgangsmáli að fjarlægja styttur af þeim sem studdu þrælahaldið úr borginni. „Baráttunni er hvergi nærri lokið. En dómurinn er vissulega skref í rétta átt.“