Farage hyggst stofna nýjan flokk

Nigel Farage, fyrrverandi formaður Breska sjálfstæðisflokksins.
Nigel Farage, fyrrverandi formaður Breska sjálfstæðisflokksins. AFP

Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, hyggst stofna nýjan stjórnmálaflokk og bjóða fram við kosningar til Evrópuþingsins á næsta ári ef ríkisstjórn Bretlands frestar útgöngu landsins úr Evrópusambandinu.

Haft var eftir Farage á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að hann teldi það örlög sín að berjast fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og að hann ætti enn eftir að heyja sína stærstu stjórnmálabaráttu.

Farage sagði skilið við Breska sjálfstæðisflokkinn á dögunum meðal annars í kjölfar þess að núverandi leiðtogi, Gerard Batten, gerði Tommy Robinson, stofnanda þjóðernisöfgasamtakanna English Defence League, að ráðgjafa sínum.

Farage segist hafa rætt stofnun nýs flokks við fjölda áhrifamanna í viðskiptalífinu. Flokkurinn hafi ekki fengið nafn ennþá. Segist hann ennfremur ekki geta setið hjá og horft upp á útgönguna úr Evrópusambandinu fara niður í niðurfallið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert