Franska lögreglan hefur biðlað til almennings um hjálp við að finna manninn sem hóf skotárás skammt frá jólamarkaði í Strassborg í gærkvöld. Tveir létust og þrettán særðust í árásinni, en árásarmaðurinn er enn á flótta.
Lögreglan hefur borið kennsl á manninn, sem heitir Cherif Chekatt, 29 ára gamall og 180 sentimetrar á hæð. Samkvæmt BBC vinna hundruð lögreglumanna og landamæravarða beggja vegna landamæra Frakklands og Þýskalands hörðum höndum að því að finna Chekatt.
Chekatt mun hafa öskrað „Allahu Akbar,“ eða „Guð er mikill,“ áður en hann hóf skotárásina. Að sögn lögreglu öfgavæddist hann er hann sat í fangelsi fyrir nokkra glæpi, þar á meðal rán.
Lögregla biðlar til almennings að nálgast árásarmanninn ekki, verði hans vart, heldur hringja rakleiðis í neyðarlínuna.