Kona sem fæddi andvana barn gagnrýnir auglýsingar á samfélagsmiðlum sem beint er að ákveðnum hópum. Að sögn konunnar fékk hún endalausar auglýsingar sem beindust að nýbökuðum foreldrum á Facebook, Twitter og Instagram eftir að hún kom heim af sjúkrahúsinu.
Gillian Brockell, sem er blaðamaður á Washington Post, segir að ef þessir samfélagsmiðlar séu nógu klárir til þess að vita að hún væri þunguð þá ættu þeir alveg eins að vita að hún hafi misst barnið. Hún greindi frá sorgartíðindunum á Twitter í síðasta mánuði.
„Ég veit að þið vissuð að ég væri þunguð,“ skrifaði Brockell í bréfi til fyrirtækjanna sem birt var á vef Washington Post og á Twitter.
„Það voru mistök mín en ég stóðst einfaldlega ekki myllumerkin á Instagram. Myllumerki eins og #30weekspregnant, #babybump. Heimska ég! Ég smellti jafnvel einu sinni eða tvisvar á auglýsingar um meðgöngufatnað á Facebook,“ skrifar hún.
„En sáuð þið ekki líka að ég leitaði á Google eftir svörum um braxton hicks (fyrirvaraverki), fyrirburafæðingar og barnið hreyfir sig ekki?“ segir í bréfi Brockell.
„Tókuð þið ekki eftir þriggja daga þögn minni á samfélagsmiðlum sem gerist aldrei hjá stórnotanda eins og mér?“ Eða tilkynningum eins og harmi lostin, vandamál og andvana auk rúmlega 200 tárvotra karla (emoji) að tjá tilfinningar frá vinum mínum?“ segir hún enn fremur í bréfinu. „Er þetta ekki eitthvað sem þið gætuð fylgst með?“
Aðstoðarforstjóri auglýsingadeildar Facebook, Rob Goldman, sendi Brockell afsökunarbeiðni og sagðist harma reynslu hennar í tengslum við vörur miðilsins. Hann segir að Facebook sé búið að setja upp möguleikann á að loka fyrir auglýsingar tengdar ákveðnum málefnum. Svo sem auglýsingar um hluti sem tengjast foreldrahlutverkinu.
Hann segir að þetta þurfi að laga betur en að Facebook vinni að því að bæta þetta. Brockell segist vita af einhverjum slíkum stillingum en það sé ekki auðhlaupið að finna þær. Hún hafi aldrei beðið um þessar auglýsingar heldur sé þetta eitthvað sem byggi á upplýsingum sem hún deili líkt og aðrir á samfélagsmiðlum. Ástandið hafi ekkert skánað eftir að hún lokaði fyrir nýburaauglýsingar því þá hafi auglýsingar um hvernig eigi að ættleiða barn farið að herja á síður hennar á samfélagsmiðlum.