Franska lögreglan hefur handtekið foreldra og tvo bræður árásarmannsins sem hóf skotárás á jólamarkaði í Strassborg á þriðjudagskvöld. BBC greinir frá.
Alls hafa fimm manns verið handteknir í tengslum við árásina en sá fimmti er ekki skyldur árásarmanninum, Cherif Chekatt.
Chekatt hafði verið á flótta frá því hann framdi ódæðisverkið, en var felldur af lögreglu í gærkvöldi. Þrír létust í árásinni á þriðjudag og þrettán særðust. Chekatt, sem var 29 ára, hafði ítrekað verið dæmdur fyrir glæpi og segja fjölmiðlar að hann hafi öfgavæðst innan veggja fangelsisins.