Tala látinna eftir skotárás á jólamarkaði í Strassborg á þriðjudag er komin upp í fjóra, en fjórða fórnarlambið lést af sárum sínum í dag. Tólf til viðbótar særðust í árásinni, að minnsta kosti einn mjög alvarlega. Fjögur fórnarlamabanna eru enn á sjúkrahúsi. BBC greinir frá.
Árásarmaðurinn, Cherif Chekatt, var felldur af lögreglu í gær en hann hafði verið á flótta frá því hann framdi ódæðisverkið.
Franska lögreglan hefur handtekið foreldra og tvo bræður hans, en alls hafa fimm manns verið handteknir í tengslum við árásina. Sá fimmti er ekki skyldur árásarmanninum.
Innanríkisráðherra Frakklands, Christophe Castaner, opnaði jólamarkaðinn aftur í dag, en Emanual Macron, forseti Frakklands, er einnig væntanlegur til Strassborgar.
Chekatt, sem var 29 ára, hafði ítrekað verið dæmdur fyrir glæpi og segja fjölmiðlar að hann hafi öfgavæðst innan veggja fangelsisins.