Níu japanskir læknaskólar hagræddu inntökuprófum til að útiloka konur úr hópi umsækjenda um nám. BBC segir þetta vera niðurstöðu rannsóknar sem japönsk stjórnvöld létu gera.
Vinna við rannsóknina hófst í ágúst eftir að upp komst að læknaháskólinn í Tókýó (TMU) hefði allt frá 2006 hagrætt niðurstöðum kvenna í hópi umsækjenda. Ástæðan sem gefin var voru áhyggjur af að of margar konur ættu síðan ekki eftir að starfa sem læknar.
Masahiko Shibayama, menntamálaráðherra Japans, sagði niðurstöður rannsóknarinnar „veruleg vonbrigði“.
„Ég vil að háskólarnir svari samstundis og á kurteisislegan hátt fyrir aðstæður umsækjenda,“ hefur Kyodo-fréttaveitan eftir Shibayama. Stjórnvöld í Japan hafa verið að reyna að auka hlut kvenna á vinnumarkaði, sérstaklega í stjórnunarstöðum. Hagræðingar læknaháskólanna þykja því töluvert bakslag.
Það vakti verulega reiði meðal almennings í Japan er upp komst um útilokunaraðferð TMU. Í kjölfarið lét menntamálaráðuneytið gera rannsókn á inntökuprófum 81 læknaháskóla. Segir Asahi Shimbun-dagblaðið 10 háskóla hafa verið skilgreinda sem svo að inntökupróf þeirra væru „óviðeigandi“ og vísaði þar til þess að framkoma við nemendur var mismunandi eftir kyni og aldri. Einn skólanna neitaði hins vegar að hafa gert nokkuð rangt.
„Hver og einn háskóli verður að taka á þessu máli hratt og ítarlega,“ hefur Asahi Shimbun eftir Shibayama.
Þá reyndust háskólarnir einnig hafa stundað ýmsa aðra óviðeigandi iðju, m.a. með því að veita börnum fyrrverandi nemenda frekar inngöngu og sýna fordóma í garð þeirra sem sátu inngönguprófið í nokkur skipti. Einn háskólanna, Juntendo, sagði fyrr í vikunni að markið hefði verið sett hærra fyrir konur af því að þær ættu auðveldara með að tjá sig en karlar og kæmu því betur út úr viðtalshluta inntökuprófsins.
Hafði dagblaðið Yomiuri Shimbun eftir ónefndum heimildamanni í ágúst að TMU hefði tekið upp „þögult samþykki“ til að draga úr fjölda kvenna sem teknar voru inn út af áhyggjum af því að konur sem útskrifuðust myndu ekki starfa sem læknar.