Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, var þakklátur á Twitter þegar hann þakkaði sérsveitarmönnum fyrir að hafa skotið árásarmanninn í Strassborg til bana í gærkvöldi. Sagði hann að markmiðum gagnvart hryðjuverkum hafi verið náð að fullu. Jólamarkaðurinn í borginni hefur verið opnaður að nýju.
Cherif Chekatt, sem var 29 ára gamall íbúi í Strassborg, var undir eftirliti sérsveita lögreglunnar áður en hann lét til skarar skríða á þriðjudagskvöldið og skaut þrjá til bana og særði 13.
Chekatt var á svonefndum Fiché-S-lista en á honum er fólk sem er talið vera möguleg ógn við þjóðaröryggi. Chekatt hafði verið á listanum frá árinu 2015 en hann öfgavæddist í fangelsi. Hann var með 27 dóma á bakinu, þar á meðal fyrir rán. Glæpaferillinn náði til þriggja landa: Frakklands, Þýskalands og Sviss.
Á þriðjudagsmorguninn var lögregla að leita hans í tengslum við annað mál en kom að tómum kofunum á heimili hans skammt frá miðborginni. Við leit á heimili hans í Neudorf-hverfinu fundust ýmsar tegundir vopna, svo sem handsprengja, riffill, fjórir hnífar, þar af tveir veiðihnífar og skotfæri.
Fréttastofa vígasamtakanna Ríki íslams, Amaq, greindi frá því í gær að Chekatt væri hermaður Ríkis íslams og hefði framið árás sem svar við árásum á almenna borgara í öðrum ríkjum.
Það voru þrír lögreglumenn á vakt sem sáu Chekatt tilsýndar á Rue du Lazaret í Neudorf-hverfinu í gærkvöldi. Um er að ræða sama hverfi og síðast sást til hans á þriðjudagskvöldið eftir árásina á jólamarkaðnum. Þegar lögreglumennirnir reyndu að stöðva hann skaut hann að þeim og þeir svöruðu í sömu mynt.
Yfirvöld hafa ekki svarað spurningu sem hvílir á mörgum - hvernig tókst Chekatt að komast inn fyrir öryggiseftirlit á jólamarkaðnum án þess að afskipti væru höfð af honum? Á sama tíma og vitað var að markaðurinn var mögulegt skotmark vígasamtaka.
Um 500 lögreglumenn, sérsveitarmenn og hermenn fylgjast með brúm sem liggja að eyjunni á ánni þar sem byggingin sem hýsir markaðinn er. Um er að ræða byggingu sem er á heimsminjaskrá UNESCO.
Sérstakur ríkissaksóknari í hryðjuverkum, Remy Heitz, mun ræða við fréttamenn á fundi í Strassborg síðar í dag en innanríkisráðherra landsins, Christophe Castaner, tók þátt í athöfninni þegar jólamarkaðurinn var opnaður að nýju klukkan 10 að íslenskum tíma.
Castaner gefur lítið fyrir yfirlýsingar Ríkis íslams og segir að Chekatt hafi ekki verið hermaður heldur maður sem var heltekinn af hinu illa.
Fimm eru í haldi í tengslum við árásina. Þar á meðal foreldrar Cherif Chekatt og tveir bræðra hans.
Tveir létust í árásinni en sá þriðji lést í gær, Kamal Naghchband, bifvélavirki sem kom upprunalega frá Afganistan. Hann lætur eftir sig þrjú börn og fer útför hans fram í dag. Hann var með fjölskyldu sinni á markaðnum og skaut Chekatt hann í höfuðið. Af þeim sem særðust í árásinni eru fimm mjög alvarlega særðir og er einn þeirra heiladauður.
Rúmlega sextugur bankamaður á eftirlaunum lést einnig í árásinni og eins taílenskur ferðamaður sem var í fríi í Frakklandi ásamt eiginkonu sinni.