Donald Trump Bandaríkjaforseti vissi að það var rangt að borga tveimur konum, sem sögðust hafa átt í tygjum við Trump, fyrir þögn þeirra í aðdraganda forsetakosninganna 2016. Þetta kemur fram í viðtali við Michael Cohen, fyrrverandi lögfræðing Trumps.
Cohen segir að Trump hafi gripið til aðgerða vegna þess að hann hafði miklar áhyggjur af því hvaða áhrif tengsl hans við konurnar myndu hafa á kosningarnar.
Cohen ræddi við ABC-fréttastofuna en þetta var fyrsta viðtalið við lögfræðinginn síðan hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi, meðal annars fyrir skattsvik og brot á kosningalögum.
„Ég fyrirskipaði Michael Cohen aldrei að brjóta lögin. Hann var lögfræðingur og hann á að þekkja lögin.“ Þetta skrifaði Trump á Twitter í gær. Cohen segir hins vegar að Trump hafi auðvitað vitað að greiðslurnar til Stormy Daniels og Karen McDougal væru ólöglegar.