Obamacare samræmist ekki stjórnarskrá

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kom á heilbrigðislöggjöfinni, sem er kennd …
Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kom á heilbrigðislöggjöfinni, sem er kennd við hann, árið 2010. AFP

Bandarískur alríkisdómari í Texas-ríki hefur komist að þeirri niðurstöðu að Obamacare, sem er heilbrigðislöggjöf sem Barack Obama, fyrrverand forseti Bandaríkjanna, kom á, samræmist ekki stjórnarskrá landsins.

Lögmenn 20 ríkja, sem höfðuðu málið í sameiningu, héldu því fram að heilbrigðislöggjöfin hefði verið gerð ógild í kjölfar breytinga sem voru gerðar á skattalöggjöf landsins í fyrra, en þá var tekið út að mönnum yrði gerð refsing væru þeir ekki sjúkratryggðir. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að þetta séu frábært tíðindi fyrir Bandaríkin.

Fram kemur á vef BBC, að það sé líklegt að hæstiréttur muni fjalla um málið. 

Trump hafði heitið því að afnema heilbrigðislöggjöf forvera síns, en hún tók gildi árið 2010. Tilgangur Obamacare var að tryggja Bandaríkjamönnum, sem ættu annars ekki efni á því, að almenna sjúkratryggingu.

Þá segir, að þrátt fyrir að repúblikanar hafi verið með meirihluta í báðum deildum þingsins þá er löggjöfin enn í gildi. 

Bandaríkjaþing ákvað hins vegar í fyrra að afnema þann hluta laganna þar sem mönnum var gerð refsing, að lagður yrði á menn skattur, væru þeir ekki tryggðir. 

Trump tjáði sig um niðurstöðu dómarans þegar niðurstaðan var ljós. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert