Tæplega 12 þúsund konur hafa höfðað mál á hendur hreinlætis- og lækningavöruframleiðandanum Johnson & Johnson þar sem þær telja að talkúm í barnapúðri frá fyrirtækinu hafi valdið þeim krabbameini. Dómar hafa fallið í nokkrum málanna og skaðabætur verið greiddar í einhverjum þeirra. Konurnar höfðu notað barnapúðrið, eða annað sambærilegt púður frá fyrirtækinu, í kringum kynfærin á sér í hreinlætisskyni. Sjálft barnapúðrið hefur hins vegar verið notað áratugum saman á húðfellingar barna og á bleyjusvæði til að koma í veg fyrir roða og útbrot.
Í nýlegri umfjöllun Reuters-fréttastofunnar er það svo fullyrt að stjórnendur Johnson & Johnson hafi vitað að asbestmengað talkúm hafi verið notað í barnapúðrið áratugum saman. Og að reynt hafi verið að hylma yfir það.
Johnson & Johnson lét til að mynda bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) ekki vita að asbest greindist í talkúmpúðri sem tekið var til prófana hjá þremur ólíkum rannsóknarstofum á árabilinu 1972-1975 og að í einu tilfellinu mældist asbestmagnið „frekar mikið“. Þess í stað gerði fyrirtækið sitt til að hafa áhrif á áætlanir reglugerðaraðila um að takmarka asbest í snyrtivörum með því að fullyrða að ekkert asbest hefði mælst í prófunum á talkúmi hjá þeim.
Talkúm er steinefni sem finnst í leirkenndum jarðvegi og er sótt í námur neðanjarðar. Það er mýksta þekkta steinefnið og þykir einkar nytsamlegt í framleiðslu á ýmiss konar neysluvöru og iðnaðarvarningi. Vandinn er hins vegar sá að asbest finnst gjarnan á svipuðum slóðum í jarðveginum og agnir úr því geta borist í talkúmið. Það er því hætta á krossmengun, að sögn jarðfræðinga. Þetta kemur fram í umfjöllun The New York Times um málið.
Talkúm er ekki bara notað í barnapúður, heldur einnig fjölmargar snyrtivörur, eins og varaliti, maskara, andlitspúður, augnskugga og farða. Það fyrirfinnst jafnvel í snyrtivörum fyrir börn. Ef innihaldlýsingar eru skoðaðar gæti talkúm heitið; talc, talcum, talcum powder, cosmetic talc eða magnesium silicate. Tilgangur talkúms í snyrtivörum er að skapa mjúka áferð og draga í sig raka. Sum snyrtivörufyrirtæki framleiða þó talkúmlausar snyrtivörur.
Talkúm er einnig notað við matvælaframleiðslu, í fæðubótaefni, lyf og tyggjó. Þá hefur talkúm fundist í vaxlitum og barnaleikföngum.
Hér áður fyrr var talkúm einnig notað í einnota hanska fyrir skurðlækna og smokka, en því var hætt á tíunda áratugnum eftir að FDA gaf framleiðendum þau fyrirmæli. Þá höfðu vaknað spurningar um hvort talkúm væri hættulegt heilsu fólks.
Svo er talkúm að sjálfsögðu aðalinnihaldsefni í langflestu barnapúðri. Johnson & Johnson barnapúður er gert úr talkúmi, nema það standi á brúsanum að það innhaldi eingöngu maíssterkju. Hvað aðra framleiðendur varðar er best að skoða innihaldslýsingar á brúsanum, vilji fólk forðast talkúm.
Í umfjöllun The New York Times er spurt hvort halda eigi barnapúðri frá börnum. Svarið er já.
„Barnalæknar hafa varað foreldra við því áratugum saman að nota ekki púður á börn vegna hættu á að börnin andi því ofan í lungun. Það getur orðið til þess að öndunarvegurinn lokast, valdið miklum hósta og jafnvel köfnun. Þá getur það leitt til krónískra sjúkdóma í öndunarfærum og lungnaskemmdum. Það hefur hins vegar ekkert með asbest að gera,“ segir í umfjölluninni.
Reglulega hafa komið upp mál í Bandaríkjunum þar sem barnapúður hefur leitt til köfnunar barna, en frá árinu 1981 hafa barnalæknar þar í landi talað gegn notkun barnapúðurs sem inniheldur talkúm á börn. Púðrið hafi ekkert lækningagildi, en af því stafi mikil köfnunarhætta.
Til að forðast roða og útbrot á bleyjusvæði barna, er ráðlagt að skipta oftar á börnunum, en nota olíukennd krem þegar nauðsyn krefur.
Fullorðnum er bent á að nota frekar maíssterkju eða kartöflumjöl í stað talkúms á húð eða kynfæri til að halda svæðum þurrum eða koma í veg fyrir ertingu.
Líkt og fram hefur komið hafa hátt í 12 þúsund konur höfðað mál á hendur Johnson & Johnson þar sem þær telja talkúmpúðrið hafa valdið krabbameini, en í seinni tíð hafa vaknað spurningar um hugsanleg áhrif asbestsmengunar í talkúmi á heilsu fólks.
Johnson & Johnson hefur stærsta markaðshlutdeild í sölu á talkúmpúðri og hefur framleitt og selt barnapúður og sambærilegar vörur í yfir 100 ár. Fyrirtækið hefur því mikilla hagsmuna að gæta. Forsvarsmenn þess fullyrða að talkúmið sem notað er í vörur þeirra sé ekki asbestmengað. Þá segja þeir hugmyndir um að talkúmið sjálft geti valdið krabbameini byggðar á lélegum vísindarannsóknum. Fyrirtækið hyggst áfrýja öllum málum sem falla þeim í óhag.
FDA gerði síðast prófanir á vörum sem innihalda talkúm árið 2010, en þá fundust engin merki um asbestmengun. Hrátt talkúm frá fjórum birgjum var prófað ásamt 24 tilbúnum vörum. Sérfræðingar sem rannsakað hafa talkúm fyrir hönd stefnenda í málum gegn Johnson & Johnson segjast hins vegar hafa fundið asbest í þeim sýnum sem þeir hafa tekið.
FDA gerir ekki prófanir öryggi snyrtivara, fyrir utan prófanir á litum sem notaðir eru sem íblöndunarefni. Tilbúnar snyrtivörur og efnin sem notuð er í þær, þarfnast því ekki samþykkis FDA. Eftirlitið segist þó taka mjög alvarlega þær vísbendingar sem fram hafa komið um að asbest kunni að leynast í snyrtivörum. Ábyrgðin sé hins vegar hjá framleiðendunum og þeir verði að tryggja að vörurnar séu öruggar í notkun.