Öll flugumferð um Gatwick-flugvöllinn í London hefur verið stopp frá því níu í gærkvöldi vegna tilkynninga um að drónar hafi sést á flugi yfir flugvallarsvæðinu. Opnað var stuttlega fyrir flugumferð um þrjúleytið í nótt, en lokað aftur um klukkutíma síðar vegna frekari tilkynninga um dróna á ferð.
Veruleg truflun hefur orðið á flugi til og frá flugvellinum þess vegna og segir BBC þá farþega sem eiga flug um Gatwick nú í morgun þurfa að gera ráð fyrir seinkunum vegna þessa og er þeim bent á að fylgjast vel með brottfarartilkynningum.
— Gatwick Airport LGW (@Gatwick_Airport) December 20, 2018
Fresta hefur þurft fjölda flugferða frá vellinum og flugvélum sem hafa átt að lenda á Gatwick hefur verið beint til annarra flugvalla í Bretlandi og á meginlandi Evrópu, m.a. í París og Amsterdam.
Bresk stjórnvöld samþykktu í sumar lög sem banna, af öryggisástæðum, að drónar séu á ferð innan eins kílómetra frá flugvöllum.
Eru farþegar beðnir afsökunar á ónæðinu sem þessu fylgir á Twitter síðu flugvallararins, en öryggi farþega og starfsmanna verði að vera í algjörum forgangi.