Lögregla leitar stjórnanda drónanna

Gatwick flugvöllur er enn lokaður vegna drónanna, sem valdið hafa …
Gatwick flugvöllur er enn lokaður vegna drónanna, sem valdið hafa mikilli röskun á flugi. Lögregla leitar nú stjórnanda þeirra. AFP

Flugumferð um Gatwick-flugvöllinn í Lundúnum liggur enn niðri eftir að vart var við ferðir dróna á flugvallasvæðinu. Segir BBC „drónaárásina“ hafa orðið til þess að ferðaplön tugþúsunda flugfarþega hafi raskast og að lögregluleit standi nú yfir að stjórnenda eða stjórnendum drónanna.

Gatwick-flugvellinum var lokað klukkan níu í gærkvöldi eftir að sást til tveggja dróna á svæðinu, en bresk lög banna að drónar séu á ferð innan eins kílómetra frá flugvöllum landsins. Flugvöllurinn var svo opnaður í tæpan klukkutíma um þrjú í nótt, en var svo lokað aftur eftir að frekari fregnir bárust af drónum á ferð. Tilkynningar um dróna á ferð bárust svo á ný um sjöleitið í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá flugvallayfirvöldum áttu um 110.000 farþegar að fljúga með 760 flugvélum um Gatwick í dag.

BBC hefur eftir lögregluyfirvöldum í Sussex  að ekki sé talið að um hryðjuverk sé að ræða, en að engu að verið sé að trufla flugumferð „vísvitandi.

Dr. Alan McKenna, hjá Kent háskóla segir að svo virðist sem drónarnir séu af „iðnaðarstærð“ og „ekki þeirrar gerðar að hægt sé að kaupa þá úti í búð“.

Chris Woodroofe, yfirmaður  hjá flugvallalögreglunni, sagði lögreglu nú leita stjórnanda drónanna, sem og leiða til að gera þá óvirka. Lögregla hafi hins vegar ekki viljað ganga svo langt að skjóta drónana niður vegna hættu á að skotin lentu annars staðar.

Fresta hef­ur þurft fjölda flug­ferða frá vell­in­um og flug­vél­um sem hafa átt að lenda á Gatwick hef­ur verið beint til annarra flug­valla í Bretlandi og á meg­in­landi Evr­ópu, m.a. í Par­ís og Amster­dam.

Eru farþegar beðnir af­sök­un­ar á ónæðinu sem þessu fylg­ir á Twitter síðu flug­vall­ar­ar­ins, en ör­yggi farþega og starfs­manna verði að vera í al­gjör­um for­gangi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert