Þýska fréttatímaritið Der Spiegel hefur rekið verðlaunaðan blaðamann sem starfaði hjá tímaritinu fyrir að búa til lýsingar og tilvitnanir í fjölda greina sinna.
Segir í yfirlýsingu Der Spiegel að blaðamaðurinn Claas Relotius hafi „falsað greinar á umfangsmiklum skala og jafnvel búið til viðmælendur“. Meðal þeirra greina sem nú eru sagðar innihalda falsar eða skáldað efni eru greinar sem Relotius var ýmist verðlaunaður fyrir eða tilnefndur til verðlauna fyrir.
Der Spiegel er einn margra fjölmiðla sem Relotius skrifaði fyrir, en tímaritið birti 60 greinar eftir blaðamanninn og hefur blaðamaðurinn nú viðurkennt að a.m.k. fjórtán þeirra greina innihaldi skáldskap eða falsanir. Relotius skrifaði fyrstu grein sína fyrir Der Spiegel árið 2011 og þá síðustu fyrir nokkrum vikum.
Í yfirlýsingu frá Der Spiegel segir að unnið sé að því að rannsaka nákvæmlega hversu víðtækur skáldskapur Relotius hafi verið, en málið komst upp eftir að kollegi hans á blaðinu sem vann með honum að einni grein vakti athygli yfirmanna á atriðum sem honum fundust grunsamleg.
Er Relotius sagður hafa bætt viðmælendum við greinar sínar sem hann hafði hvorki hitt né rætt við. Segir Der Spiegel brot hans hafa verið framin bæði „viljandi“ og „kerfisbundið“ og biður tímaritið lesendur afsökunar á málinu sem sé lágpunktur í 70 ára sögu blaðsins.
Meðal þeirra atriða sem Relotius bjó til í greinum sínum var lýsing í grein um innflytjendamál á handgerðu skilti í bæ í Minnesota þar sem átti að standa „Mexíkóar haldið ykkur fjarri“.
Þá bjó Relotius einnig til upplýsingar sem komu fram í öðrum greinum m.a. einni um fanga í Guantanamo og annarri sem fjallaði um Colin Kaepernick, leikmann í NFL-deildinni í ameríska fótboltanum.