Gatwick opnaður á ný eftir drónaflug

Farþegar bíða á Gatwick-flugvelli. 120.000 manns höfðu í gærkvöldi lent …
Farþegar bíða á Gatwick-flugvelli. 120.000 manns höfðu í gærkvöldi lent í því að flugi þeirra var aflýst vegna dróna sem sveimaði um yfir flugvellinum. AFP

Búið er að opna á flugumferð um Gatwick-flugvöllinn í Lundúnum á ný eftir meira en sólarhringslokun vegna dróna sem bæði ógnaði og truflaði flugumferð um flugvöllinn.

Að sögn BBC verður takmörkuðum fjölda flugvéla leyft að lenda og fljúga frá vellinum til að byrja með. Lággjaldaflugfélagið Easyjet tilkynnti m.a. að áætlunarflug flugfélagsins um Gatwick hæfist nú að nýju, en búast má þó við töfum fyrst í stað. Þá er gert ráð fyrir flugi bæði Icelandair og WOW air um Gatwick í dag, að því er fram kemur á vef Keflavíkurflugvallar.

Hvetja flugvallaryfirvöld á Gatwick farþega þó til að fylgjast vel með brottfarar- og komuáætlun.

Þúsundir farþega eru búnar að vera strandaglópar á Gatwick frá því fyrst var tilkynnt um drónan og segir BBC að í gærkvöldi hafi sá fjöldi farþega sem lenti í því að flugi þeirra var aflýst vegna drónaflugsins verið kominn upp í 120.000 manns.

Leit lögreglu að stjórnanda drónans er enn í fullum gangi, en yfir 50 tilkynningar um dróna hafa borist frá því Gatwick-flugvelli var lokað fyrir flugumferð um níuleytið á miðvikudagskvöldið.

Greint var frá því í gær að lög­regl­an í Sus­sex kann­aði mögu­leika á því að skjóta niður drónann, eftir að hafa upphaflega hafnað slíkum hugmyndum vegna þeirrar hættu sem öðrum gæti stafað af skotunum.

BBC hefur eftir Jason Tingley lögreglustjóra að svo virðist sem drónanum hafi verið breytt og hann þróaður með það í huga að valda vísvitandi truflunum á flugi. „Við munum gera það sem við getum til að taka hann niður,“ sagði Tingley.

Yfirmaður vopnadeildar lögreglunnar í Sussex og Surrey, Justin Burtenshaw, sagði erfitt verk að finna stjórnanda drónans. „Í hvert skipti sem við nálgumst stjórnandann hverfur dróninn og þegar við íhugum að opna flugvöllinn birtist dróninn á ný,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert