Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði í kvöld banni sem Donald Trump Bandaríkjaforseti vill setja til að koma í veg fyrir að flóttafólk sem kemur ólöglega til landsins frá Mið-Ameríku geti sótt um hæli.
Greint er frá því í frétt AFP-fréttaveitunnar að úrskurður Hæstaréttar sé ekki skýrður nánar. Fjórir af níu dómurum voru sammála Trump sem undirritaði tilskipun í nóvember þar sem hælisleitendum sem koma ólöglega til landsins var bannað að óska eftir hæli. Sagði Bandaríkjaforseti þá að tilskipunin varðaði þjóðaröryggi.
Dómararnir fjórir sem studdu Trump voru Clarence Thomas, Samuel Alito og þeir tveir sem Trump hefur útnefnt sem dómara; Neil Gorsuch og Brett Kavanaugh.
Trump skrifaði undir tilskipunina 9. nóvember í þeim tilgangi að stöðva flæði hælisleitenda, aðallega frá Gvatemala, Honduras og El Salvador, frá því að koma til Bandaríkjanna án leyfis.
Fjölmargir þeirra sóttu um hæli vegna ofbeldis og fátæktar í heimalandi sínu. Alríkisdómarar höfðu áður lagt bann við tilskipuninni sem hafði verið harðlega gagnrýnd af baráttuhópum fyrir mannréttindum.
Fram kemur í frétt AFP að niðurstaða Hæstaréttar kunni að breyta litlu fyrir hælisleitendur. Ríkisstjórn Trump tilkynnti í gær að öllum ólöglegum innflytjendum sé gert að bíða í Mexíkó á meðan umsókn þeirra er tekin til fyrir.