Lögreglan í Sussex kannar nú möguleika á því að skjóta niður dróna sem hefur ógnað og truflað flugumferð á Gatwick-flugvelli í meira en sólarhring. Lögreglustjórinn í Sussex, Jason Tingley, segir í samtali við BBC að fljótlega eftir að fregnir af drónunum tveimur bárust kom til greina að skjóta hann niður en engin ákvörðun hefur verið tekin enn.
Breski herinn er í viðbragðsstöðu vegna ástandsins á flugvellinum en honum var lokað klukkan níu í gærkvöldi eftir að sást til tveggja dróna á svæðinu, en bresk lög banna að drónar séu á ferð innan eins kílómetra frá flugvöllum landsins.
Um 110.000 farþegar áttu að fljúga með 760 flugvélum um Gatwick í dag.
Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins og verður flugvöllurinn áfram lokaður í óákveðinn tíma, samkvæmt upplýsingum frá lögregluyfirvöldum.