N-Kórea greiði hálfan milljarð dollara í bætur

Frá útför Otto Warmbier.
Frá útför Otto Warmbier. AFP

Alríkisdómari í Washington í Bandaríkjunum hefur dæmt stjórnvöld í Norður-Kóreu til að greiða foreldrum Otto Warmbier, sem lést í Bandaríkjunum eftir að hafa verið í haldi stjórnvalda í Norður-Kóreu, rúmlega hálfan milljarð Bandaríkjadollara fyrir að hafa pyntað og myrt son þeirra. Fréttstofa CNN greinir frá.

Í dómnum sem var kveðinn upp á aðfangadagskvöld sagði meðal annars: „Warmbier-fjölskyldan upplifði grimmd stjórnvalda í Norður-Kóreu af fyrstu hendi þegar sonur þeirra var notaður sem peð í störukeppni alræðisríkis Norður-Kóreu við Bandaríkin.“

Stjórnvöld í Norður-Kóreu handsömuðu Otto Warmbier árið 2016 þegar hann var á leið úr landinu eftir fimm daga ferðalag. Otto, sem var á þeim tíma stúdent við Virginíuháskóla, var sakaður um að hafa stolið veggspjaldi af hótelinu sem hann dvaldi á.

Otto var skilað aftur til Bandaríkjanna í júní 2017 eftir samningaviðræður sem ríkisstjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta leiddi. Við komuna til Bandaríkjanna var Otto bæði blindur og heyrnarlaus auk þess sem hann hafði orðið fyrir verulegum heilaskaða eftir dvöl sína í varðhaldi. Hann lést eftir að hafa dvalið innan við viku í Bandaríkjunum.

Otto Frederick Warmbier les játningu í sjónvarpsútsendingu árið 2016. Talið …
Otto Frederick Warmbier les játningu í sjónvarpsútsendingu árið 2016. Talið er líklegt að hann hafi verið þvingaður til að flytja ávarpið og játa. AFP

Foreldrar Otto, Fred og Cindy Warmbier sögðu dóminn vera stórt skref í þeirra baráttu. „Við erum þakklát fyrir að Bandaríkin hafi sanngjarnt og gagnsætt dómskerfi svo heimurinn geti séð að ríkisstjórn Kim [Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu] er lagalega og siðferðislega ábyrg fyrir dauða Otto. Við og fjölskylda lögðum í þá þrekraun að höfða málið því við lofuðum Otto að við myndum ekki hvíla fyrr en réttlæti væri náð.“

Af fjárhæðinni sem stjórnvöld í Norður-Kóreu voru dæmd til að greiða Warmbier-fjölskyldunni voru miskabætur 45 milljónir dollara og 6 milljónir dollara voru veittar þeim Fred og Cindy vegna missis framtíðartekna sonar þeirra.

Þrátt fyrir niðurstöðu dómsins er ekki líklegt að Warmbier-fjölskyldan fái neitt greitt frá Norður-Kóreu þar sem stjórnvöld þar í landi svöruðu ekki fyrirkalli dómara og dómurinn því einhvers konar útivistardómur (e. default judgement). Norður-Kórea á engar eignir í Bandaríkjunum sem hægt var að kyrrsetja.

Fáeinum klukkustundum eftir að dómurinn var birtur tísti Donald Trump að hann væri að undirbúa næsta fund með leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un, en minntist ekki á dóminn í færslu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert