Tveggja ára látinn eftir umskurð

Drengurinn missti mikið blóð í kjölfar aðgerðarinnar og lést vegna …
Drengurinn missti mikið blóð í kjölfar aðgerðarinnar og lést vegna þessa.

Tveggja ára gamall drengur lést eftir umskurð sem framkvæmdur var í miðstöð fyrir innflytjendur á Ítalíu. Sama aðgerð var framkvæmd á bróður drengsins í úthverfi Rómar, en hann jafnar sig nú á spítala. Maður á sjötugsaldri hefur verið handtekinn.

Drengurinn missti mikið blóð í kjölfar aðgerðarinnar og lést vegna þessa, en talið er að þriðjungur þeirra 5.000 umskurða sem framkvæmdir eru á Ítalíu ár hvert séu ólöglegir.

Umskurðir eru ekki framkvæmdir á almennum heilbrigðisstofnunum í landinu og umskurði á einkastofum fylgir talsverður kostnaður, að því er segir í frétt BBC.

Samtökin sem reka flóttamannamiðstöðina eru harmi slegin og kveðjast ætla að bregðast við atvikinu að lögreglurannsókn lokinni. Meðal þess sem yfirvöld á Ítalíu hafa til skoðunar í tengslum við málið er hvort maðurinn sem framkvæmdi aðgerðina hafi lokið læknisprófi, en sá handtekni mun vera frá Líbýu.

Drengirnir tveir fæddust nígerskri móður á Ítalíu á síðasta ári, en móðirin átti fyrir fimm börn sem búsett eru í Nígeríu.

Móðirin vildi að drengirnir gengjust undir umskurð af virðingu við íslamska menningu Nígeríu þrátt fyrir að sjálf sé hún kaþólskrar trúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert