Donald Trump Bandaríkjaforseti og Melania Trump, eiginkona hans, komu bandarískum hermönnum í Írak á óvart í dag með óvæntri heimsókn á herstöð rétt fyrir utan Bagdad.
„Þau flugu þangað seint á jóladag og vilja þakka hermönnunum fyrir þjónustu þeirra, velgengni og fórnir,“ segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu. Reuters hefur eftir forsetanum að ekki standi til að draga Bandaríkjaher heim frá Írak, en einungis eru nokkrir dagar síðan Trump tilkynnti að hann ætli að kalla allt herlið heim frá Sýrlandi.
Forsetahjónin munu heimsækja tvær herstöðvar bandaríska hersins í Írak. Alls eru yfir 5.000 hermenn á vegum bandaríska hersins í landinu.
Heimsókn Bandaríkjaforseta á herstöðvar erlendis er ákveðin hefð á hátíðisdögum. Sem dæmi má nefna heimsókn George W. Bush til Bagdad 2003 þegar hann færði bandarískum hermönnum kalkún á þakkargjörðarhátíðinni. Barack Obama heimsótti einnig sína hermenn um páskana 2009 til Íraks þegar hann sagði að tími væri til kominn að Írakar tæku ábyrgð á eigin landi.
Obama heimsótti bandarískar herstöðvar fimm sinnum í forsetatíð sinni en heimsókn Trump til Íraks er sú fyrsta síðan hann tók við embætti fyrir tæpum tveimur árum.