Segja Mattis hafa átt að hætta fyrr

Jim Mattis, fráfarandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ásamt forsetanum Donald Trump.
Jim Mattis, fráfarandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ásamt forsetanum Donald Trump. AFP

Það vakti bæði áhyggjur og reiði víða er Jim Mattis greindi frá því að hann hygðist segja af sér embætti sem varnarámálaráðherra Bandaríkjanna. Margir lofuðu í kjölfarið framlag Mattis til núverandi Bandaríkjastjórnar og einn stjórnmálaskýrandi sagði jafnvel í lýsingum sínum að með brotthvarfi hans væri síðasti fullorðni einstaklingurinn nú farinn úr Hvíta húsinu.

Var Mattis lýst sem „þjóðargersemi“ og hann lofaður fyrir siðferðisvitund sína. CNN segir aðrar hliðar á viðskilnaði hans við Hvíta húsið hins vegar nú farnar að koma í ljós. Hefur fréttastofa CNN eftir heimildamönnum sínum að fjöldi starfsmanna varnarmálaráðuneytisins hafi ekki verið sáttir við ráðherrann og að þörf Mattis fyrir að halda mjög föstum höndum um stjórnartaumana eigi sinn þátt í þeirri ákvörðun Donald Trumps Bandaríkjaforseta að tilkynna öllum að óvörum að Bandaríkjaher væri að draga sig frá Sýrlandi og minnka viðveru sína í Afganistan.

Mattis sagði af sér embætti af því að hann var ósáttur með ákvörðun forsetans varðandi Sýrland og hefur sú ákvörðun forsetans verið gagnrýnd víða, m.a. þar sem hún geti bæði aukið áhrif rússneskra stjórnvalda í þessum heimshluta, sem og veitt vígasamtökunum Ríki íslams færi á að auka styrk sinn á ný.

CNN hefur eftir embættismönnum að þeir telji þá Trump og Mattis hafa deilt lengi og að sá síðarnefndi hefði átt að hætta fyrr og að nú munu kúrdar í Sýrlandi gjalda þeirra ákvörðunar hans dýru verði. Hefði Mattis hins vegar hætt eftir að Trump lýsti honum í viðtali við CBS sjónvarpsstöðina í október sem „einskonar demókrata“,  þá hefði nú verið starfandi varnarmálaráðherra sem mögulega hefði getað fengið forsetann til að hætta við að draga herinn til baka.

„Það var hárrétt hjá honum að skrifa formlegt bréf og afhenda yfirmanni sínum. Það er algjörlega í anda hersins,“ segir John Kirby, sérfræðingur CNN í málefnum hersins. „Að hafa bréfið hins vegar svona langt og heimspekilegt, þannig að það minni á eins konar stefnuyfirlýsingu og koma því til fjölmiðla skömmu eftir að það var afhent, bendir hins vegar til þess að hann sé að reyna að bjarga sér og að komast fram úr spuna Trumps,“ segir Kiby.

Heimildamenn CNN, sem ekki eru sérstakir stuðningsmenn forsetans, segja þetta hins vegar mjög í anda Mattis. Hann hafi verið drifinn áfram af eigin skoðunum og  verið harðákveðinn í að sinna starfinu og reyna á sama tíma að forðast að vekja reið Trumps.

Segja þeir þá miklu athygli sem afsögn Mattis hafa ekki bara vakið reiði Trumps, heldur einnig ýmissa ráðamanna hersins. Aðrir hafa sagt hins vegar að með því bréfi sínu sé Mattis að benda öðrum yfirmönnum hersins á að séu þeir ósáttir við ákvarðanir forsetans eigi þeir líka að segja af sér.

Brett McGurk, sérfræðingur bandarískra stjórnvalda í málefnum Ríkis íslams, tilkynnti skömmu eftir afsögn Mattis að hann segði líka upp störfum vegna ákvörðunar Trump að draga allt herlið Banda­ríkj­anna frá Sýr­landi. Fleiri virðasta hins vegar ekki hafa fylgt í kjölfarið enn sem komið er.

CNN hefur einnig eftir heimildamönnum sínum að Mattis hafi heft aðgengi annarra yfirmanna hersins að forsetanum, m.a. af ótta við að hann færi að veita þeim beinar skipanir sem þeir ættu þá ekki annars kost en að hlýða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert