Mikill viðbúnaður í Frakklandi

Tæplega 150 þúsund lögreglumenn verða á vaktinni í Frakklandi í kvöld vegna boðaðra mótmæla gulu vestanna gegn stjórnvöldum.

Fram kemur í frétt AFP að hæsta viðbúnaðarstig verði í París, höfuðborg landsins, í kjölfar ítrekaðra átaka sem komið hafi til á milli lögreglu og mótmælenda undanfarna mánuði.

Til stendur að Emmanuel Macron, forseti Frakklands, flytji ávarp í sjónvarpi um klukkan 19:00 að íslenskum tíma um það leyti sem mótmælin eiga að hefjast.

Ennfremur segir að þrátt fyrir að nokkuð hafi dregið úr mótmælunum að undanförnu valdi það yfirvöldum áhyggjum að mótmælin fari fram á sama tíma og fjöldi ferðamanna sé í miðborginni sem og fólk að skemmta sér vegna áramótanna.

„Hverju getum við átt von á? Óreiðu,“ er haft eftir Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands. Segist hann ekki telja markmið gulu vestanna að mótmæla heldur að valda skaða. Búist er við að nokkur þúsund taki þátt í mótmælunum.

Reiknað er með að ræða Macrons verði ekki síst beint að mótmælunum sem hófust í nóvember og snerust upphaflega um hækkun á eldsneytisverði en hafa síðan snúist upp í almenn mótmæli gegn stefnu franskra stjórnvalda.

Eiffel-turninn í París, höfuðborg Frakklands, í kvöld.
Eiffel-turninn í París, höfuðborg Frakklands, í kvöld. AFP
Emmanuel Macron, forseti Frakklands.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert