Þrír látnir og fjölda saknað eftir sprengingu

Björgunarmenn fyrir utan bygginguna. Myndinni hefur verið dreift af rússneskum …
Björgunarmenn fyrir utan bygginguna. Myndinni hefur verið dreift af rússneskum yfirvöldum. AFP

Þrír eru látnir og að minnsta kosti 79 manns er saknað eftir að gassprenging varð í tólf hæða íbúðabyggingu í borginni Magnitogorsk í Rússlandi í morgun. Hluti byggingarinnar hrundi við sprenginguna.

Á myndefni rússneska ríkisútvarpsins má sjá hundruð björgunarmanna vinna við að leita í rústunum, en um átján gráðu frost er á svæðinu í Úralfjöllunum, um 1.700 kílómetrum austan við Moskvu.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur skipað neyðarmálaráðherranum Jevgení Sinitsjev og heilbrigðisráðherranum Veroniku Skvortsovu að fara til borgarinnar og hafa yfirumsjón með björgunaraðgerðum.

Byggingin var reist árið 1973 og í henni áttu heima um 1.100 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert