Björgunaraðilar í Rússlandi fundu í dag tíu mánaða dreng á lífi í rústum fjölbýlishúss í borginni Magnitogorsk í Úrafjöllum sem hrundi að hluta í gassprengingu í gær. Sprengingin var að minnsta kosti átta manns að bana en fjölda manns er enn saknað. Aðeins sex hafa fundist á lífi.
Björgunaraðilar urðu varir við barnsgrát, en svo virðist sem vagga sem drengurinn lá í, vandlega vafinn inn í teppi, hafi bjargað lífi hans. Litli drengurinn, Ivan Fokin, er engu að síður með alvarleg kalsár á útlimum, höfuðáverka og illa fótbrotinn og var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahús í Moskvu.
Móðir drengsins lifði slysið einnig af og hefur fengið að hitta son sinn.
Mjög kalt er á svæðinu, en frost hefur farið niður í -27 gráður á nóttunni og er um -18 gráður á daginn. Þá er óttast að meira af byggingunni kunni að hrynja. Ekki eru því taldar miklar líkur á því að fleiri finnist á lífi.
Fjölbýlishúsið var reist árið 1973 og þar áttu 1.100 manns heima. Íbúarnir eru nú heimilislausir og hafast við í skólabyggingum í borginni.