Átta slasaðir eftir lestarslys

Slysið varð á Stórabeltisbrúnni sem tengir saman dönsku eyjarnar Fjón …
Slysið varð á Stórabeltisbrúnni sem tengir saman dönsku eyjarnar Fjón og Sjáland. Kort/Google

Átta manns eru slasaðir eftir að lest á Stórabeltisbrúnni í Danmörku þurfti að hemla harklega vegna hlutar sem fauk á brautarteinana og þaðan á lestina. Frá þessu er greint á vef danska ríkisútvarpsins. Stormurinn Alfrida gengur yfir hluta Skandinavíu þessa stundina og er einna hvassast í Danmörku og Svíþjóð.

Brúnni hefur verið lokað og segir lögreglan á Fjóni í færslu á Twitter að lögregla og sjúkrabílar séu á leiðinni á vettvang.

Yfir hundrað þúsund heimili án rafmagns

Óveðrið má rekja til stormsins sem gekk yfir norðurhluta Íslands á gamlársdag en leifar af því ganga nú yfir hluta Skandinavíu. Stormurinn hefur einnig haft mikil áhrif í Svíþjóð en samkvæmt The Local þar eru yfir hundrað þúsund heimili án rafmagns. Truflun hefur einnig orðið á samgöngum þar sem tré hafa fallið á vegi og þá er einnig röskun á áætlunarferðum ferja á svæðinu. Þá liggja lestarsamgöngur einnig niðri í Svíþjóð.

Annars stigs veðurviðvörun hefur verið gefin út í austurhluta Svíþjóðar, þar á meðal í Stokkhólmi og Uppsölum. Engan hefur sakað í óveðrinu í Svíþjóð svo vitað sé.

Óveðrið hefur ekki haft áhrif á flugumferð enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert