Átta manns eru slasaðir eftir að lest á Stórabeltisbrúnni í Danmörku þurfti að hemla harklega vegna hlutar sem fauk á brautarteinana og þaðan á lestina. Frá þessu er greint á vef danska ríkisútvarpsins. Stormurinn Alfrida gengur yfir hluta Skandinavíu þessa stundina og er einna hvassast í Danmörku og Svíþjóð.
Brúnni hefur verið lokað og segir lögreglan á Fjóni í færslu á Twitter að lögregla og sjúkrabílar séu á leiðinni á vettvang.
Der er sket en togulykke på lavbroen over Storebælt. Ambulancer og politi på vej til stedet. Giv plads til udrykning. Kør ikke mod Nyborg ad motorvejen. Storebæltsforbindelsen er lukket. Vi melder ud her så snart vi ved mere #politidk
— Fyns Politi (@FynsPoliti) January 2, 2019
Óveðrið má rekja til stormsins sem gekk yfir norðurhluta Íslands á gamlársdag en leifar af því ganga nú yfir hluta Skandinavíu. Stormurinn hefur einnig haft mikil áhrif í Svíþjóð en samkvæmt The Local þar eru yfir hundrað þúsund heimili án rafmagns. Truflun hefur einnig orðið á samgöngum þar sem tré hafa fallið á vegi og þá er einnig röskun á áætlunarferðum ferja á svæðinu. Þá liggja lestarsamgöngur einnig niðri í Svíþjóð.
Annars stigs veðurviðvörun hefur verið gefin út í austurhluta Svíþjóðar, þar á meðal í Stokkhólmi og Uppsölum. Engan hefur sakað í óveðrinu í Svíþjóð svo vitað sé.
Óveðrið hefur ekki haft áhrif á flugumferð enn sem komið er.