Fengu 95% afslátt vegna villu

Vegna tölvuvillu fengu margir viðskiptavinir Cathay allt að 95% afslátt …
Vegna tölvuvillu fengu margir viðskiptavinir Cathay allt að 95% afslátt á flugmiðum til Bandaríkjanna og Kanada frá Víetnam. AFP

Tölvuvilla hjá flugfélaginu Cathay Pacific Airways varð til þess að flugmiðar í fyrsta farrými seldust óvart með allt að 95% aflætti. Flugfélagið, sem hefur höfuðstöðvar sínar í Hong Kong, hyggst standa við söluna og þeir fáu sem náðu að næla sér í miða með afslættinum fá að nýta miðana.

Samkvæmt tilkynningu flugfélagsins á Twitter og Facebook er um að ræða flug frá Víetnam til Kanada og Bandaríkjanna, segir í umfjöllun Bloomberg.

Heppnu farþegarnir sem keyptu um áramótin miða í fyrsta farrými frá Da Nang í Víetnam til New York í Bandaríkjunum greiddu 675 Bandaríkjadali, andvirði 79 þúsund íslenskra króna, fyrir flug sem við venjulegar kringumstæður kostar 16 þúsund Bandaríkjadali, andvirði 1,8 milljóna íslenskra króna.

Ekki hefur verið greint frá því hversu margir náðu að festa kaup á umræddum miðum, en sambærilegt atvik kom upp hjá flugfélaginu fyrir ári og hjá Singapore Airlines árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert