Segist „í meginatriðum“ hafa rekið Mattis

Trump ræðir við blaðafólk í Hvíta húsinu í dag.
Trump ræðir við blaðafólk í Hvíta húsinu í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi í dag að „í meginatriðum“ hefði hann rekið Jim Mattis, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem sagði sig frá embætti sínu 20. desember. Afsögn Mattis kom í beinu framhaldi af þeirri ákvörðun Trumps að draga Bandaríkjaher frá Sýrlandi.

Trump var harðorður í garð Mattis og hélt mikla einræðu fyrir blaðamenn áður en hann gekk inn á ríkisstjórnarfund í dag. „Hvað hefur [Mattis] gert fyrir mig? Hvað hefur hann gert í Afganistan?“ sagði Trump og sagðist óánægður með stöðu mála þar í landi og það hve mikla peninga starfsemi Bandaríkjahers í landinu kostar.

„Ég er ekki ánægður með hvað [Mattis] hefur gert í Afganistan og hef ekki ástæðu til þess,“ sagði Bandaríkjaforseti og bætti við að hann óskaði fyrrverandi ráðherra sínum þó góðs gengis í framtíðinni.

Jim Mattis sagði upp störfum 20. desember sl.
Jim Mattis sagði upp störfum 20. desember sl. AFP

„En eins og þið vitið rak Obama hann og í meginatriðum gerði ég það líka. Ég vil sjá árangur,“ sagði Trump, en Barack Obama rak Mattis úr þáverandi stjórnunarstarfi hans innan Bandaríkjahers árið 2013, fyrir að vera of óvinveittur gagnvart stjórnvöldum í Íran.

Það eru engin nýmæli að Trump gagnrýni þá sem að hafa tekið þá ákvörðun að starfa ekki lengur fyrir hann og ríkisstjórn hans, en gagnrýni hans á Mattis í dag vekur þó athygli því Trump hefur oft lýst yfir aðdáun sinni á ráðherranum fyrrverandi.

Uppsagnarbréf Mattis vakti mikla athygli er það var opinberað í desember, en þar sagði Mattis meðal annars að Trump „ætti rétt á því að vera með varnarmálaráðherra“ sem hefði skoðanir sem væru í takti við skoðanir forsetans og því þætti honum réttast að segja af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert