Yfirvöld í Rússlandi hafa staðfest að minnst fjórtán manns eru látnir eftir gassprengingu sem varð í tólf hæða íbúðahúsi í borginni Magnitogorsk í Rússlandi á gamlársdag. Björgunaraðilar á vettvangi vinna enn að því að leita að einhverjum með lífsmarki og fjarlægja lík úr rústunum.
Talsmaður ríkisstjóra í Magnitogorsk sagði fjölmiðlum að fjórtán lík hefðu fundist en að 27 manns væri enn saknað. „Vinna á vettvangi mun halda áfram.“
Fimm manns hefur verið bjargað úr rústum byggingarinnar, þar á meðal 10 mánaða gömlu barni. 86 íbúar fjölbýlishússins hafa fundist ómeiddir.
Sprengingin eyðilagði 35 íbúðir og olli tjóni á tugi íbúða til viðbótar. Byggingin sjálf var reist árið 1973 og í henni bjuggu um 1.100 manns.
Björgunaraðilar þurfa ekki einungis að glíma við mjög erfiðar aðstæður svo sem óstöðugt brak úr byggingunni og hættu á frekara hruni hússins heldur glíma þeir við lamandi frost sem er á bilinu -18 til -27 gráður. Magnitogorsk er í Úralfjöllunum, um 1.700 kílómetra austan við Moskvu.