Sex létust í járnbrautarslysi í Danmörku í morgun og sextán slösuðust, enginn lífshættulega. Slysið varð klukkan 7:35 að staðartíma í morgun á Stórabeltisbrúnni sem tengir Sjáland og Fjón. Danska ríkisútvarpið greinir frá.
Slysið varð með þeim hætti að farþegalest á leið til Kaupmannahafnar mætti flutningalest sem var að flytja bjór. Mjög hvasst var á svæðinu en stormurinn Alfrida gengur þessa stundina yfir Danmörku og Svíþjóð. Þegar lestirnar mættust fauk yfirbreiðsla eða hlutar af þaki og hliðum vagna úr flutningalestinni og lentu á farþegalestinni þannig að hún varð að nauðhemla.
131 farþegi var í lestinni og þrír starfsmenn. Farþegarnir sem ekki slösuðust voru fluttir í fjöldahjálparstöð sem opnuð var í íþróttahúsi í Nyborg á Fjóni.
Brúnni var lokað í nótt vegna veðurs en hún hafði nýlega verið opnuð þegar slysið átti sér stað. Brúnni var lokað vegna slyssins en opnað hefur verið fyrir bílaumferð á brúnni á ný.