„Trump hefur hrætt heimsbyggðina“

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mitt Romney, verðandi öldungadeildarþingmaður fyrir Utah.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mitt Romney, verðandi öldungadeildarþingmaður fyrir Utah. AFP

Mitt Romney, fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins og verðandi öldungadeildarþingmaður Utah, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta ekki starfi sínu vaxinn. 

Í grein sem Romney skrifar í Washington Post og birtist í gær fer hann óvægum orðum um Trump og segir forsetatíð hans á hraðri niðurleið eftir ákvarðanir síðustu vikna um að yfirgefa bandamenn sem berjast með Bandaríkjunum og að skipta út Jim Mattis varnarmálaráðherra og John Kelly starfsmannastjóra Hvíta hússins.

Romney gagnrýndi forsetaframboð Trump harðlega en forsetinn studdi samt sem áður framboð Romney í Utah í kosningunum í nóvember síðastliðnum. Tímasetning greinarinnar, tveimur dögum áður en þing kemur saman á ný og Romney tekur sæti í öldungadeildinni, þykir gefa til kynna að Romney muni bjóða sig fram gegn Trump í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 2020.

Í greininni lofar Romney samt sem áður fjölda stefnumála Trumps líkt og skattalækkanir á fyrirtæki og skipun íhaldssamra dómara. Stefnumál og skipanir í embætti séu hins vegar aðeins hluti af verksviði forsetans, segir Romney.

„Þegar þjóðin er svona klofin, bitur og reið skiptir eðli og skapgerð forsetans máli þegar kemur að forystuhlutverki.“

Á sama tíma fullyrðir hann að orð og gjörðir forsetans hafi valdið hræðslu um alla heimsbyggðina. Romney segir að hann muni styðja stefnu forsetans sem hann telur þjóna hagsmunum Utah eða ríkisins í heild sinni en að hann muni hafna stefnumálum sem ala á sundrungu, kynþáttahyggju, karlrembu, andúð á innflytjendum eða stefnumálum sem eru óheiðarleg eða skaðleg lýðræðislegum stofnunum,“ segir í grein Romney.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert