Útiloka ekki að beita hervaldi í Taívan

Forseti Kína, Xi Jinping, hélt ræðu í tilefni af því …
Forseti Kína, Xi Jinping, hélt ræðu í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá því að Kínverjar sendu Taívönum skilaboð þess efnis að sameinast aftur og láta af hernaðarátökum. AFP

Xi Jinping, forseti Kína, hvetur taívönsku þjóðina til að sætta sig við að hún „verði og muni“ sameinast Kína. Þetta sagði hann í ræðu í nótt sem haldin var í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá því að Kínverjar sendu Taívönum skilaboð þess efnis að sameinast aftur og láta af hernaðarátökum.

Xi varaði samt sem áður við því að Kínverjar útiloki ekki að beita hervaldi til að koma Taívan aftur undir stjórn Kína.

Taívan hefur búið yfir sjálfsstjórn frá borgarastríðinu árið 1949 og líta Taívanar á landið sem fullvalda ríki. Þeir hafa eigin mynt, stjórn- og dómskerfi, en hafa aldrei lýst formlega yfir sjálfstæði.

Xi telur öruggt að Taívan eigi eftir að sameinast Kína þar sem þau tilheyri sömu kínversku fjölskyldunni. Ef aðskilnaðarsinnar muni beita afli gegn friðsömu sameiningarferli verða Kínverjar tilbúnir til að grípa til allra ráða, sagði Xi meðal annars í ræðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert