Stöðva bjórflutninga með lestum

Bjórlest frá DB Cargo átti þátt í slysinu á Stórabeltisbrúnni …
Bjórlest frá DB Cargo átti þátt í slysinu á Stórabeltisbrúnni í gær. Slíkar lestir verða ekki notaðar fyrr en búið er að rannsaka málið í þaula. AFP

Fyrirtækið DB Cargo, sem annast vöruflutninga með lestum, ætlar að hætta að flytja bjór yfir Stórabeltisbrúna í Danmörku í kjölfar slyssins á brúnni í gær, þar sem átta manns létu lífið. Bjórlest frá fyrirtækinu átti þátt í slysinu. Jan Wildau, talsmaður DB Cargo, greindi frá þessu. DR fjallar um málið.

DB Cargo flytur bjór yfir Stórabeltisbrúna um það bil 30 sinnum í viku. Flutningalest fyrirtækisins vegur yfir 550 tonn fullhlaðin og bráðabirgðaniðurstöður rannsóknarnefndar samgönguslysa í Danmörku sýna að svo virðist sem einn vagna flutningalestarinnar hafi losnað frá og lent á farþegalest DSB sem kom úr gagnstæðri átt.

Það var hvasst á Stórabeltinu er slysið varð, en Wildau vill ekki gefa sér neitt um það hvað nákvæmlega olli slysinu. Þó er ljóst að bjórlestin verður ekki keyrð að nýju fyrr en allir eru fullvissir um það hvað átti sér stað og að öryggið sé tryggt.

Mannlegt að finna til ábyrgðar

Starfsmenn DB Cargo verða yfirheyrðir við rannsókn samgönguyfirvalda og lögreglu á þessu mannskæða slysi, bæði þeir sem önnuðust frágang bjórlestarinnar áður en hún lagði af stað og ökumenn hennar.

Samkvæmt Wildau eru þeir starfsmenn sem unnu að flutningunum fyrir hönd fyrirtækisins afar leiðir vegna slyssins. „Hvort sem þeir bera einhverja ábyrgð eða ekki, eru það náttúruleg mannleg viðbrögð að finna til ábyrgðar. Slysið var gríðarlega alvarlegt og starfsmönnunum líður ekki vel,“ segir Wildau.

Átta manns létust í slysinu. Mynd frá vettvangi í gær.
Átta manns létust í slysinu. Mynd frá vettvangi í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka