Tugþúsundir flýja hitabeltisstorm

Búist er við að stormurinn gangi yfir eyjarnar Koh Phangan …
Búist er við að stormurinn gangi yfir eyjarnar Koh Phangan og Koh Tao í nótt með mikilli úrkomu og búast má við allt að sjö metra háum öldum við ströndina. Ljósmynd/Twitter

Tugþúsundir ferðamanna hafa flúið taílensku eyjarnar Koh Phangan og Koh Tao vegna hitabeltisstormsins Pabuk sem nálgast. Búist er við að stormurinn gangi yfir í nótt með mikilli úrkomu og búast má við allt að sjö metra háum öldum við ströndina og hættu á flóðum.

Eyjarnar eru mjög vinsæll viðkomustaður ferðamanna, sérstaklega um jól og áramót, og talið er að á bilinu 30-50.000 manns hafi yfirgefið eyjarnar frá því í gær. „Ég held að eyjarnar séu að tæmast,“ segir Krikkrai Songthanee, héraðsstjóri á Koh Phangnan.

Ekki hefur verið gefin út opinber fyrirskipun um að fólk forði sér frá eyjunum þar sem ekki er gert ráð fyrir að stormurinn nái vindstyrk fellibyls. „En von er á mikilli ölduhæð,“ segir Phuwieng Prakammaintara, veðurfræðingur á Veðurstofu Taílands. Því sé öruggara að fólk yfirgefi eyjarnar.

Stormurinn mun svo halda leið sinni áfram á föstudag yfir á eyjuna Koh Samui. Þá má einnig búast við að leifar af storminum skili sér í mikilli úrkomu á Andaman-eyjum og Krabi, sem og í suðurhluta Malasíu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert