Bráðamóttöku á spítalanum í Enköping í Svíþjóð hefur verið lokað eftir að grunur um ebólu kom upp. Sjúklingurinn sem um ræðir hefur verið settur í einangrun á spítala í Uppsala en hann kom til Svíþjóðar frá Búrúndí fyrir þremur vikum og fann fyrir einkennum síðustu daga, að því er fram kemur í frétt Expressen.
„Ákveðið var að loka bráðamóttökunni þar til við náum fullri stjórn á aðstæðum,“ segir Mikael Köhler, framkvæmdastjóri lækninga á spítalanum í Enköping.
Ebóla er banvænn og mjög smitandi vírus sem erfitt hefur reynst að hemja er hann hefur komið upp. Sérstaklega breiðist hann hratt út í þéttbýli. Einkennin sem sjúklingurinn fann fyrir og þykja benda til að um ebólu sé að ræða eru blóðug uppköst og blóð í saur.
Sýni hefur verið tekið úr sjúklingnum og búast má við niðurstöðu í kvöld hvort um ebólu sé að ræða.