Yfir tíu milljónir heimsóttu vinsælasta safn í heimi, Louvre í París, á síðasta ári og hafa gestirnir aldrei verið fleiri. Stjórnendur safnsins telja að metið megi að hluta til þakka ofurparinu Beyoncé og Jay Z sem tóku upp tónlistarmyndband á safninu við lag sitt The Apeshit sem kom út um mitt síðasta ár.
Alls heimsóttu 10,2 milljónir safnið árið 2018 sem er 25% aukning frá árinu á undan. Jean-Luc Martinez, safnstjóri Louvre, tengir aukinn fjölda heimsókna einnig við að safnið sé að rétta úr kútnum eftir að heimsóknir drógust saman vegna ótta við hryðjuverk, en rúm þrjú ár eru liðin frá hryðjuverkunum í Bataclan-tónlistarhúsinu í París.
Martinez er þó spenntari að eigna Beyoncé og Jay Z heiðurinn. Myndbandið er tekið upp á nokkrum stöðum í safninu, sem er jú fyrrverandi höll og á því vel við Queen B og eiginmann hennar. Myndbandið er með um 147 milljónir áhorfa á YouTube og þar er málverkið af Monu Lisu í stóru hlutverki ásamt 16 öðrum málverkum og listmunum.
„Myndbandið með Beyoncé varð til þess að fólk um heim allan talar um Louvre. Því megum við þakka auknar heimsóknir,“ segir Martinez í samtali við France Info Radio.
Þá telur hann að yfirhalning á móttöku og miðasölukerfi safnsins, sem kostaði um 60 milljónir evra, jafnvirði um átta milljarða íslenskra króna, hafi einnig skilað sér í fleiri heimsóknum. Umbæturnar voru að hluta til fjármagnaðar af Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en Louvre opnaði einmitt útibú í Abu Dhabi á síðasta ári.
Flestir gestanna koma frá Bandaríkjunum, um ein og hálf milljón, og í öðru sæti eru Kínverjar, en tæplega ein milljón Kínverja heimsótti safnið í fyrra. Kínverskum gestum hefur þó fjölgað mest á síðustu árum en þeir komust ekki einu sinni á topp fimm listann fyrir fimm árum.