Skúbbuðu hernaðarleyndarmáli á forsíðu

Nígerískir hermenn við heiðursathöfn í heimalandinu fyrir skemmstu. Fyrirhuguðum aðgerðum …
Nígerískir hermenn við heiðursathöfn í heimalandinu fyrir skemmstu. Fyrirhuguðum aðgerðum þeirra gegn Boko Haram var skúbbað á forsíðu dagblaðsins Daily Star. AFP

Níg­er­íski her­inn er sakaður um að ráðast gegn frjáls­um fjöl­miðlum, í kjöl­far þess að her­menn réðust inn á rit­stjórn­ar­skrif­stof­ur fjöl­miðils þar í landi, tóku tvo blaðamenn hönd­um og lögðu hald á tölv­ur vegna forsíðufrétt­ar um fyr­ir­hugaðar aðgerðir hers­ins gegn hryðju­verka­hópn­um Boko Haram.

Fjöl­miðill­inn Daily Trust greindi frá fyr­ir­huguðum aðgerðum hers­ins gegn Boko Haram í forsíðufrétt í lok síðustu viku, við litla kátínu yf­ir­manna hers­ins, sem héldu að þeir væru að skipu­leggja leyni­leg­ar aðgerðir.

Sani Usm­an talsmaður hers­ins seg­ir að brugðist hafi verið við með þess­um hætti þar sem dag­blaðið hefði stefnt þjóðarör­yggi í hættu með því að birta ná­kvæm­ar upp­lýs­ing­ar um at­lög­una gegn hryðju­verka­hópn­um, en her­inn þusti inn á skrif­stof­ur Daily Trust í þrem­ur borg­um lands­ins, Maidug­iri, höfuðborg­inni Abuja og Lagos.

Hann rétt­lætti aðgerðirn­ar gegn fjöl­miðlin­um og seg­ir að dag­blaðið hafi ljóstrað upp um leyni­leg­ar hernaðar­upp­lýs­ing­ar, sem hafi gefið liðsmönn­um Boko Haram viðvör­un, eyðilagt þær aðgerðir sem voru skipu­lagðar og stefnt lífi her­manna í aug­ljósa hættu. Í yf­ir­lýs­ingu frá tals­mann­in­um í gær var það þó orðað sem svo, að her­inn hefði ein­ung­is „viljað bjóða“ blaðamönn­un­um sem skúbbuðu hernaðarleynd­ar­mál­inu að ræða þær af­leiðing­ar sem birt­ing frétt­ar­inn­ar hefði haft.

Mann­ir Dan-Ali, rit­stjóri Daily Star, for­dæm­ir aðfar­ir hers­ins og kall­ar þær ólög­leg­ar, en Daily Star hef­ur um nokk­urt skeið sætt aðkasti frá stjórn­völd­um fyr­ir að birta grein­ar sem fjalla um aðgerðir hers­ins með gagn­rýn­um hætti.

Am­nesty In­ternati­onal í Níg­er­íu og Alþjóðleg sam­tök um vernd blaðamanna (Comm­ittee to Protect Journa­lists) taka í sama streng og rit­stjóri blaðsins, en Níg­er­ía er í 119. sæti á lista sam­tak­anna Blaðamanna án landa­mæra yfir fjöl­miðlafrelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert