Fjölskyldan á leið til Taílands

AFP

Sameinuðu þjóðirnar segja að það muni taka nokkra daga að fara yfir beiðni ungrar konu frá Sádi-Arabíu um alþjóðlega vernd og áströlsk yfirvöld að fara yfir stöðu hennar og hvort veita skuli henni hæli þar í landi. 

Rahaf Mohammed al-Qunun, sem er átján ára gömul, millilenti á alþjóðaflugvellinum í Bangkok á sunnudag eftir að hafa flúið fjölskyldu sína í Kúveit. Hún segist vera beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi heima fyrir og að líf hennar sé í hættu. Taílensk yfirvöld ætluðu í fyrstu að vísa henni úr landi en þegar málið vakti alþjóðlega athygli var hætt við brottvísunina. Qunun hefur óskað eftir hæli í Taílandi en hún ætlaði í fyrstu að sækja um hæli í Ástralíu. Fjölskylda hennar er væntanleg til Taílands í dag.

Rahaf Mohammed al-Qunun.
Rahaf Mohammed al-Qunun. AFP

Fulltrúi Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í Taílandi, Giuseppe de Vicentiis, segist þakklátur fyrir að taílensk yfirvöld hafi hætt við að senda hana aftur til Sádi-Arabíu án þess að skoða mál hennar. Taíland er ekki aðili að flóttamannasamningi SÞ og hælisleitendur eru yfirleitt sendir úr landi eða þurfa að bíða árum saman eftir því að fá búseturétt í þriðja ríkinu. 

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu segja að þau hafi ekki krafist þess að hún yrði send úr landi enda sé um fjölskyldumál að ræða sem stjórnvöld hafi ekki afskipti af. Aftur á móti fylgist starfsmenn sendiráðs þeirra í Bangkok með málinu henni til hagsbóta. 

Yfirmaður innflytjendamála, Surachate Hakparn, segir að faðir Qunun og bróðir hennar séu væntanlegir til Taílands síðar í dag. Hann ætli að biðja fulltrúa UNHCR að vera viðstaddan fund fjölskyldunnar. Hann segir að mál stúlkunnar sé ekki pólitískt hælismál, það eigi í raun ekkert skylt við pólitík.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert