Rahaf Mohammed al-Qunun, 18 ára gömul kona frá Sádi-Arabíu, hefur ítrekað ósk sína um að henni verði veitt hæli í Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu eða Bretlandi.
Qunun millilenti á alþjóðaflugvellinum í Bangkok á sunnudag eftir að hafa flúið fjölskyldu sína í Kúveit. Hún segist vera beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi heima fyrir og að líf hennar sé í hættu. Taílensk yfirvöld ætluðu í fyrstu að vísa henni úr landi en þegar málið vakti alþjóðlega athygli var hætt við brottvísunina.
Qunun endurbirti (e. retweet) í morgun tíst sitt á Twitter-aðgangi sínum þar sem hún biður um að sér verði veitt hæli í einu af ríkjunum fjórum og birti í kjölfarið færslu þar sem hún segist sérstaklega óska eftir því að henni verði veitt hæli í Kanada.
Sameinuðu þjóðirnar tilkynntu í dag að það muni taka nokkra daga að fara yfir beiðni hennar um alþjóðlega vernd. Áströlsk yfirvöld segja það fagnaðarefni að beiðni Qunun hafi verið tekin til umfjöllunar og um leið og því sé lokið af hálfu Flóttamannaaðstoðar SÞ (UNCHR) muni áströlsk stjórnvöld fara yfir stöðu Qunun og hvort veita skuli henni hæli þar í landi.
Faðir Qunun og bróðir hennar eru væntanlegir til Taílands síðar í dag og hefur fulltrúi UNHCR í Taílandi, Giuseppe de Vicentiis, farið fram á að fulltrúi UNHCR verði viðstaddur fund fjölskyldunnar.
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu segja að þau hafi ekki krafist þess að hún yrði send úr landi enda sé um fjölskyldumál að ræða sem stjórnvöld hafi ekki afskipti af. Aftur á móti fylgist starfsmenn sendiráðs þeirra í Bangkok með málinu henni til hagsbóta.