Vill fá hæli í Kanada

Rahaf Mohammed al-Qunun.
Rahaf Mohammed al-Qunun. AFP

Rahaf Mohammed al-Qun­un, 18 ára gömul kona frá Sádi-Arabíu, hefur ítrekað ósk sína um að henni verði veitt hæli í Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu eða Bretlandi.

Qun­un milli­lenti á alþjóðaflug­vell­in­um í Bang­kok á sunnu­dag eft­ir að hafa flúið fjöl­skyldu sína í Kúveit. Hún seg­ist vera beitt and­legu og lík­am­legu of­beldi heima fyr­ir og að líf henn­ar sé í hættu. Taí­lensk yf­ir­völd ætluðu í fyrstu að vísa henni úr landi en þegar málið vakti alþjóðlega at­hygli var hætt við brott­vís­un­ina.

Qunun endurbirti (e. retweet) í morgun tíst sitt á Twitter-aðgangi sínum þar sem hún biður um að sér verði veitt hæli í einu af ríkjunum fjórum og birti í kjölfarið færslu þar sem hún segist sérstaklega óska eftir því að henni verði veitt hæli í Kanada.

Sam­einuðu þjóðirn­ar tilkynntu í dag að það muni taka nokkra daga að fara yfir beiðni hennar um alþjóðlega vernd. Áströlsk yf­ir­völd segja það fagnaðarefni að beiðni Qunun hafi verið tekin til umfjöllunar og um leið og því sé lokið af hálfu Flóttamannaaðstoðar SÞ (UNCHR) muni áströlsk stjórnvöld fara yfir stöðu Qunun og hvort veita skuli henni hæli þar í landi.

Faðir Qun­un og bróðir henn­ar eru vænt­an­leg­ir til Taí­lands síðar í dag og hefur full­trúi UN­HCR í Taílandi, Giu­seppe de Vicenti­is, farið fram á að full­trúi UN­HCR verði viðstaddur fund fjöl­skyld­unn­ar.

Stjórn­völd í Sádi-Ar­ab­íu segja að þau hafi ekki kraf­ist þess að hún yrði send úr landi enda sé um fjöl­skyldu­mál að ræða sem stjórn­völd hafi ekki af­skipti af. Aft­ur á móti fylg­ist starfs­menn sendi­ráðs þeirra í Bang­kok með mál­inu henni til hags­bóta.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert