Hættulegur staður fyrir konur

Frá Moria flóttamannabúðunum á Lesbos.
Frá Moria flóttamannabúðunum á Lesbos. Oxfam

Hundruð þungaðra kvenna, barna sem eru ein á flótta og fólk sem hefur lifað af pyntingar býr við skelfilegar aðstæður í flóttamannabúðum á grísku eyjunni Lesbos. Dæmi eru um að konur sofi með bleyjur þar sem þær þora ekki á salerni að næturlagi. Þær segja búðirnar hættulegan stað fyrir konur og þær séu aldrei öruggar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu bresku góðgerðarsamtakanna Oxfam.

Aðstæðurnar eru skelfilegar í Moria flóttamannabúðunum á Lesbos.
Aðstæðurnar eru skelfilegar í Moria flóttamannabúðunum á Lesbos. Oxfam

Nánast allt síðasta ár var aðeins einn læknir á vegum yfirvalda starfandi á Lesbos við að taka viðtöl og rannsaka flóttafólk sem kom til eyjunnar. Um tvö þúsund flóttamenn koma þangað í hverjum mánuði. Í nóvember var enginn læknir starfandi þar þannig að ekkert eftirlit var með flóttafólki sem þangað kom, það er að finna þá sem eru verst staddir hvort sem það er andlega eða líkamlega.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslunni sem nefnist „Varnarlaus og yfirgefin.“ Þar er meðal annars rætt við mæður sem voru útskrifaðar af sjúkrahúsi fjórum dögum eftir keisaraskurð. Konurnar voru sendar í flóttamannabúðir þar sem þær bjuggu í tjöldum. 

Fólk reynir að halda á sér hita með því að …
Fólk reynir að halda á sér hita með því að kveikja í hverju sem er. Oxfam

Helstu flóttamannabúðirnar á Lesbos, Moria, eru reknar með stuðningi Evrópusambandsins og gagnrýnir Oxfam sambandið harðlega í skýrslunni. 24 ára gamall maður frá Kamerún fannst látinn aðfararnótt þriðjudags í búðunum en þá var frost á eyjunni. 

Í skýrslunni er lýst kynferðislegu ofbeldi og öðrum hryllingi sem viðgengst í búðunum. Íbúar Moria búa við skelfileg kjör og segir meirihluti þeirra að þeir séu aldrei öruggir. Íbúafjöldinn er tvöfaldur á við það sem gert var ráð fyrir þegar búðirnar voru reistar.

Moria flóttamannabúðirnar á Lesbos.
Moria flóttamannabúðirnar á Lesbos. Oxfam

Renata Rendón, sem stýrir starfi Oxfam í Grikklandi segir að það sé óábyrgt og flokkist undir vanrækslu að skimun fari ekki fram á eyjunni en með skimun er hægt að bera kennsl á þá sem eru varnarlausastir og þurfa mesta aðstoð.

„Félagar okkar hittu mæður með nýfædd börn sem bjuggu í tjöldum og unglinga sem voru ranglega skráðir fullorðnir og læstir inni. Skimun og lágmarksþjónusta er eitthvað sem stjórnvöldum ber skylda að veita.

Í skýrslu Oxfam kemur fram að helstu áhyggjur samtakanna snúi að því hversu oft ungmenni eru lokuð inni og fórnarlömb pyntinga fái ekki þá lágmarksþjónustu sem þau eigi rétt á. Ítrekað hafi börn verið lokuð inni og þau njóti oft ekki sálrænnar aðstoðar, ekkert frekar en annarrar læknisþjónustu. 

Barn í Moria flóttamannabúðunum.
Barn í Moria flóttamannabúðunum. Oxfam

Í einu tilviki var 28 ára gamall hælisleitandi frá Kamerún lokaður inni í fimm mánuði vegna þjóðernis, það er fólk frá Kamerún fellur ekki sjálfkrafa undir skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á flóttafólki, þrátt fyrir að glíma við alvarleg andleg veikindi. Engin skimun fór fram áður hann var læstur inni og það tók mánuð fyrir hann að fá fund með sálfræðingi. „Við fengum að fara út úr gámnum í tvær klukkustundir á dag. Annars þurftir þú að sitja í þröngu rýminu ásamt fimmtán öðrum mönnum sem allir glíma við sín vandamál.“

Í vetur hefur rignt mjög mikið á Lesbos og hefur tjaldsvæðið í Moria breyst í leðjufen. Frost er þar núna og jafnvel gert ráð fyrir snjókomu á næstu dögum. Í örvæntingu kveikir fólk í hverju sem er, meðal annars plasti og er með stórvarasama hitara inn í tjöldum sínum, til þess að reyna að halda á sér hita. 

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert