Með síma og myllumerki að vopni

Rahaf Mohammed al-Qunun.
Rahaf Mohammed al-Qunun. AFP

Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna telur að Rahaf Mohammed al-Qunun, sem er átján ára gömul, uppfylli þau skilyrði sem felast í flóttamannasamningi SÞ og hefur óskað eftir því að stjórnvöld í Ástralíu veiti henni alþjóðlega vernd.

Samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna á sá, sem sætir ofsóknum í heimalandi sínu vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana, rétt á hæli sem flóttamaður í þeim ríkjum sem eiga aðild að samningnum.

Niðurstaða UNHCR er mikilvægur sigur fyrir stúlkuna sem er núna í Bangkok eftir að hafa verið stöðvuð á flugvellinum þegar hún millilenti í Taílandi á leið frá Kúveit til Ástralíu. Qunun er frá Sádi-Arabíu og flúði fjölskyldu sína þegar þau voru í Kúveit um helgina. Segist hún vera í lífshættu á heimili sínu og þar sé hún beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Innanríkisráðuneyti Ástralíu hefur gefið út að umsókn hennar um vernd verði tekin til alvarlegrar athugunar og þykir líklegt að hún fái hæli þar eftir að niðurstaða UNHCR liggur fyrir.

Heilbrigðisráðherra Ástralíu, Greg Hunt, sagði að ef í ljós kæmi að hún væri flóttamaður kæmi það mjög líklega til greina að veita henni vernd af mannúðarástæðum. 

Í fyrstu ætluðu taílensk yfirvöld að vísa henni úr landi og senda til fjölskyldunnar að nýju en vegna umfjöllunar, fyrst á samfélagsmiðlum og svo fjölmiðlum, var hætt við það á mánudagsmorgun. Qunun hefur, vopnuð snjallsíma og myllumerki, leyft heiminum að fylgjast stöðugt með máli sínu. Til að mynda þegar hún lokaði sig inni á hótelherbergi á flugvellinum í Bangkok og hlóð lausamunum fyrir hurðina þannig að öryggisverðir komust ekki inn, var það allt í beinni útsendingu á netinu. 

Ekki hafa allir verið á eitt sáttir við að hún nýti tæknina á þennan hátt og má í myndskeiði á Twitter frá sádiarabískum mannréttindasamtökum sjá sádiarabískan embættismann kvarta yfir því að taílensk yfirvöld hafi ekki tekið af henni snjallsímann. 

„Þegar hún lenti opnaði hún nýjan Twitter-aðgang og fylgjendur hennar fóru í 45 þúsund á einum degi,“ heyrist hann segja á arabísku í myndskeiðinu.

„Það hefði verið betra ef þeir hefðu gert snjallsíma hennar upptækan frekar en vegabréf hennar.“ 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert