Norskri konu á sjötugsaldri, Anne-Elisabeth Falkevik, var rænt fyrir tíu vikum og krefjast mannræningjarnir þess að eiginmaður hennar, Tom Hagen, greiði 85,9 milljónir norskra króna, sem svarar til 1,2 milljarða íslenskra króna, í lausnargjald. Fyrst var fjallað um mannránið í norskum fjölmiðlum í dag.
Tom Hagen skipar 172. sætið á lista yfir ríkasta fólkið í Noregi, samkvæmt lista Kapital-tímaritsins en eignir hans eru metnar á 1,7 milljarða norskra króna, sem svarar til 23,7 milljarða króna. Hagen er umsvifamikill í fasteignaviðskiptum og á auk þess 70% hlut í orkufyrirtækinu Elkraft.
VG greinir frá því að Anne-Elisabeth Falkevik hafi horfið 31. október og að mannræningjarnir hafi farið fram á að fá lausnarféð greitt í rafmynt. Þeir hafa hótað því að beita Falkevik ofbeldi verði kröfum þeirra ekki mætt.
Norska lögreglan hefur staðfest að konu á sjötugsaldri hafi verið rænt á heimili hennar í Lørenskog, skammt frá Ósló, en hefur ekki upplýst um hver konan er. Boðað hefur verið til blaðamannafundar og er hann að hefjast.
Hægt er að fylgjast með honum á vef Aftenposten
Samkvæmt frétt VG hafa norskir fjölmiðlar vitað af mannráninu í einhvern tíma en farið að óskum lögreglu um að fjalla ekki um það opinberlega.
Auk Kripos, norsku ríkisrannsóknarlögreglunnar og efnahagsbrotadeildarinnar koma Europol og Interpol að rannsókninni auk ríkissaksóknara.