Stálu ferðatösku með fé Mugabes

Robert Mugabe ávarpar hér fjölmiðla er hann var enn forseti.
Robert Mugabe ávarpar hér fjölmiðla er hann var enn forseti. AFP

Þrír komu fyrir rétt í Simbabve í dag ákærðir fyrir að hafa stolið ferðatösku sem innihélt 150.000 dollara og tilheyrði Robert Mugabe, fyrrverandi forseta landsins.

BBC segir hina meintu þjófa þegar hafa eytt fénu í bíla, hús og búfénað.

Einn ættingja forsetans, Constantia Mugabe, er í hópi hinna ákærðu að sögn ríkisfjölmiðils Simbabve. Er hún sögð hafa haft lykla að sveitaheimili Mugabes í Zvimba, sem er í nágrenni höfuðborgarinnar Harare, og á að hafa veitt hinum aðgang að húsinu.

Hinir þjófarnir tveir störfuðu við ræstingar er stuldurinn átti sér stað, en það var einhvern tímann á tímabilinu frá desemberbyrjun þar til nú í janúar.

„Johanne Mapurisa keypti Toyota Camry [...] og hús fyrir 20.000 dollara eftir atvikið,“ sagði ríkissaksóknarinn Teveraishe Zinyemba við dómstólinn í Chinhoyi.

„Saymore Nhetekwa keypti Honda-bíl og búfénað, meðal annars svín og nautgripi fyrir ótilgreinda upphæð.“

Mugabe, sem er 94 ára, var neyddur til að segja af sér embætti í lok árs 2017, en þá hafði hann verið við völd í 37 ár. Hann var sakaður um að lifa munaðarlífi er hann sat á forsetastóli, þrátt fyrir mikla efnhagskreppu í landinu.

Ekki er ljóst hvort Mugabe var heima við er þjófnaðurinn átti sér stað, en hann hefur dvalið langdvölum í Singapore í lækningaskyni eftir að hann hætti sem forseti.

AFP-fréttastofan segir þjófana þrjá nú hafa verið látna lausa gegn greiðslu tryggingar, en sá fjórði er enn sagður ganga laus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert