Níræði Nóbelsverðlaunahafinn James Watson hefur verið sviptur heiðursviðurkenningum sem honum voru veittar eftir að hafa ítrekað látið falla ummæli um yfirburði gáfnafars hvítra manna yfir svörtum.
Þetta kemur fram á vef BBC.
Watson lýsti í sjónvarpsþætti þeirri skoðun sinni að ólík gen yllu því að hvítir stæðu sig betur á greindarvísitöluprófum en svartir. Cold Spring Harbor-rannsóknarstofnunin sagði að ummæli Watson væru bæði ósönnuð og kæruleysisleg. Stofnunin hefur nú svipt hann heiðursviðurkenningum, eins og áður segir.
Árið 2007 lét Watson sambærileg ummæli falla og var þá rekinn úr stöðu sinni við stofnunina. Hann baðst í kjölfarið afsökunar á ummælum sínum.
Watson hlaut árið 1962 Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir á DNA-kjarnsýrum ásamt samstarfsfélögum sínum Maurice Wilkins og Francis Crick. Hann seldi Nóbelsverðlaunapening sinn árið 2014 eftir að hafa verið, að eigin sögn, útskúfaður af vísindasamfélaginu vegna ummæla hans um kynþætti.